13/11/2024

Ferðamálasamtök funda á Ströndum

Fyrirhugaður er aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða nú í vor og verður hann að þessu sinni haldinn á Ströndum helgina 6.-8. maí. Arnar S. Jónsson er núverandi formaður félagsins og lætur af því embætti nú í vor. Strandamenn eiga ekki aðra fulltrúa í stjórninni, en Þórður Halldórsson á Laugarholti er í varastjórn. Að sögn Arnars er stefnt að lagabreytingum á fundinum þannig að í framtíðinni verði 5 stjórnarmenn í samtökunum, en þeir hafa verið 7 og þar af 3 virkir í framkvæmdaráði. Málþing um samgöngur verður haldið í tengslum við aðalfundinn og er Sturla Böðvarsson ráðherra samgöngu- og ferðamála væntanlegur á þingið.

Nánari staðsetning og tímasetningar liggja ekki alveg ljósar fyrir, en að sögn Arnars er óhætt fyrir alla ferðaþjóna, sveitarstjórnarmenn og áhugamenn um ferðaþjónustu á Vestfjörðum að taka þessa helgi frá til fundahalda og skemmtunar.