12/09/2024

Úrslita beðið í samkeppni

Frá því um páska hefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir tölvu- og umsjónarkennari við Grunnskólann á Hólmavík unnið að uppsetningu vefsíðu um rækju, rækjuvinnslu og rækjuveiðar ásamt nemendum sínum frá 5.-10. bekk, alls 37 krökkum. Vefurinn var tilbúinn í lok maí og tekur þátt í keppni á vegum menntamála- og sjávarútvegsráðuneytanna um sjávarútvegsvefi sem fram hefur farið í vetur. Til stóð að birta úrslitin á sjómannadag, en einhver misskilningur virðist ríkja um þá dagsetningu innan ráðuneyta og hefur ekki gengið að fá svör um hvenær úrslit verða birt. Dómnefnd hefur þó gert upp hug sinn og búið er að gera vefi þátttakenda, sem alls voru níu talins, opinbera á þessari slóð.

Rækjuvefurinn sýnir að með góðri stjórn kennara og nemendum sem tilbúnir eru að vinna er hægt að vinna þrekvirki. Vefurinn tengist heimaslóðum enda er rækjuvinnsla ein af uppistöðunum í atvinnulífi á Hólmavík og að sögn Kristínar voru starfsmenn Hólmadrangs sérlega liðlegir við að veita upplýsingar og hjálpa til á allan hátt.

Eins og Victor Örn Victorsson skólastjóri gat um á skólaslitum Grunnskólans á miðvikudaginn var, býðst verðlaunahöfum að fara á sjávarútvegssýninguna í september og eru einnig vegleg verðlaun í formi tölvubúnaðar í boði fyrir þrjú efstu sætin. Það ríkir því mikill spenna innan skólans um niðurstöðuna í samkeppninni. Framlag Grunnskólans á Hólmavík má sjá á slóðinni www.holmavik.is/skoli/raekjuvefur