07/10/2024

Geislinn vann sundbikarinn

Ungmennafélagið Geislinn vann sundbikar HSS eftir æsispennandi sundmót sem haldið var í Gvendarlaug hins góða í Bjarnarfirði í dag. Fjöldi keppenda og áhorfenda sameinaðist í blíðskaparveðri í Bjarnarfirði og var stemmningin góð.  Næstir á eftir Geislanum urðu félagar í sundfélaginu Gretti og í þriðja sæti Ungmennafélagið Leifur Heppni í Árneshreppi sem nældi sér í 34 stig þrátt fyrir að hafa fáa keppendur. Auk félaganna þriggja keppti einn gestur, Snorri Þór Pétursson, og vakti góð frammistaða hans í fjölda keppnisgreina athygli.

Þorvaldur Hermannsson sem verður þjálfari Geislans í sumar stýrði mótinu og kvaðst hann ánægður með hvernig til tókst, bæði með veðrið, stemmninguna og góða mætingu. Næsta mót á vegum HSS er pollamót sem fram fer á Hólmavík á miðvikudaginn kemur. Ekki þarf að vera í liði til að taka þátt, þar sem raðað verður í lið á staðnum. Mótið verður nánar auglýst síðar.

Stemmning á sundmóti – ljósm. Kristín S. Einarsdóttir