13/11/2024

Bragaþing á Blönduósi!

Árlegt Landsmót hagyrðinga verður haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi að kvöldi laugardagsins 1. september næstkomandi undir yfirskriftinni: Bragaþing á Blönduósi. Eins og menn muna var landsmótið haldið á Hólmavík síðasta ár. Landsmót hagyrðinga eru kvöldsamkomur með borðhaldi og þjóðlegum skemmtiatriðum, sem að hluta eru skipulögð og undirbúin, auk þess sem mótsgestir hafa fram að færa í bundnu máli. Að loknu borðhaldi er svo stiginn dans. Landsmótin eru opin öllu fólki sem ánægju hefur af góðum vísum, hvort sem það telur sig til hagyrðinga eða ekki!

Dagskrá Landsmótins á Blönduósi 1. sept.:

Borðhald hefst kl. 20. Húsið opnað kl. 19.

Veisluréttir á hlaðborði: Forréttir; Toscanakryddað lambalæri;  Kaffi og konfekt
Heiðursgestur og ræðumaður: Hjálmar Jónsson
Veislustjóri: Ósk Þorkelsdóttir
Söngstjóri: Ingi Heiðmar Jónsson
Skemmtiatriði að hætti hagyrðinga og kvæðamanna. Dans við harmónikuleik eftir borðhald. Verð: 3800 kr. Tilkynna þarf þátttöku í síðasta lagi 28. ágúst:
      Einar Kolbeinsson  ek@emax.is  s. 892 7172
      stefan.vilhjalmsson@lbs.is hs  462 2468, gsm 898 4475

Að sjálfsögðu er frjálst að yrkja um hvaðeina á landsmótunum en venja er að tilgreina 2-3 sérstök yrkisefni fyrirfram. Í ár eru þau þessi:
o        Grettir: unglingavandamál?
o        Löggæsla í Húnaþingi
o        Hvernig á hann/hún að vera (draumadísin/draumamaðurinn)?
 
Hvet ég sérhvern hagyrðing
að heiðri sínum gæta
og  Blönduóss á Bragaþing
með blöndukút að mæta.
                        StV.

Bragaþingin hófust á Skagaströnd 1989 með tíu manna teiti á Hótel Dagsbrún og það síðasta var á Hólmavík 2006. Þau eru haldin til skiptis í landsfjórðungunum og í Landnámi Ingólfs. Í Landsnefnd hagyrðingamóta eru Stefán Vilhjálmsson, Akureyri, Þorsteinn Bergsson Unaósi, Ragnar Böðvarsson Selfossi, Sigrún Haraldsdóttir Reykjavík (Landnámi Ingólfs) og Jón Jónsson Kirkjubóli á Ströndum.

Árlegu hagyrðingamótin hafa verið haldin á eftirtöldum stöðum: 1989 Skagaströnd, 1990 Hveravöllum, 1991 Laugum í Dalasýslu, 1992 Skúlagarði, 1993 Hallormsstað, 1994 Flúðum, 1995 Bændahöllinni, 1996 Núpi í Dýrafirði, 1997 Varmahlíð í Skagafirði, 1998 Seyðisfirði, 1999 Laugalandi í Holtum, 2000 Akogeshúsinu í Rvk., 2001 Hvanneyri, 2002 Akureyri, 2003 Djúpavogi, 2004 Hvolsvelli, 2005 Bændahöllinni, 2006 Hólmavík og nú 1. sept. 2007 á Blönduósi.