22/12/2024

Tapað en fundið

Hringurinn fannst í nágrenni kirkjunnarEinhvern tíma fyrir jólin varð Stefanía tónlistarkennari og organisti á Hólmavík fyrir því óláni að tapa gullhring sem henni hafði verið gefinn fyrir mörgum árum. Stefanía var nánast búin að gefa upp alla von um að finna hringinn aftur, en stakk því þó að nokkrum nemenda sinna að svipast um í nágrenni kirkjunnar, þar sem hún taldi að hringurinn hefði týnst.

Það var svo Anna Lena Victorsdóttir sem fann hringinn í gær og var hann nánast heill, nema hvað eitthvað hafði flagnað úr honum. Má það undrun sæta því töluverð umferð hefur verið þarna á bílastæðinu við kirkjuna, auk þess sem það hefur verið mokað nokkrum sinnum síðan hringurinn yfirgaf eiganda sinn. Stefanía var að vonum ánægð með fundinn og hlaut Anna Lena góð fundarlaun fyrir.