10/12/2024

Ísbjörn í Drangavík 1932

Síðustu vikur hafa stakir borgarísjakar úti fyrir Ströndum verið nokkuð í fréttum. Veðurfarið hefur á hinn bóginn verið þannig undanfarin ár, að litlar líkur virðast á að hafís leggist hér að landi næstu árin eins og gerðist oft á 20. öldinni. Þar með eru fremur litlar líkur á að hvítabirnir gangi hér á land á næstunni, en eftir því sem ég best man í augnablikinu gerðist það síðast hér á Ströndum í Drangavík árið 1932.

Frásögn af þeim viðburði eftir Guðmund Guðna Guðmundsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1955 og er byggt á þeirri grein í eftirfarandi frásögn sem sótt er í aðra grein í Morgunblaðinu í júní 1963.

Hvítabjörn skotinn 1932

Þann 8. apríl voru tveir synir hjónanna í Drangavík að renna sér á sleða austur af bænum, 11 og 14 ára gamlir. Var kallað í þá að koma heim um sjöleytið og gerðu þeir það. Skömmu síðar fór faðir þeirra, Guðmundur Guðbrandsson, í fjárhúsin og síðan að lambhúsi austar á túninu. Hafði hann meðferðis fötu af síld og leiddi 4 ára son sinn.

Þegar Guðmundur var miðja vegu milli fjárhúsanna kom hvítabjörn niður hlíðina á móti honum og fór greitt. Tók hann þá barnið undir hönd sér og hljóp heim.

Guðmundur átti tvíhleypta haglabyssu, áður ágætt vopn, en nú var annað hlaupið ónýtt orðið og útdragarinn á hinu bilaður þannig að tómu skotin gengu ekki út úr byssunni nema ýtt væri á þau með krassa niður hlaupið. Guðmundur hlóð nokkur skot með selahöglum og hafði þau svo stór sem hann þorði. Eitt skot var sett í byssuna, hinum stakk hann í vasann. Miðaldra manni sem var þar á bænum fékk Guðmundur krassann til að losa skothylkið eftir að hleypt hefði verið af og auk þess beittan ljá vel vafinn að ofan.

Meðan á þessum undirbúningi stóð var fylgst með dýrinu úr glugga. Hafði það augsýnilega fundið slóð drengjanna frá því fyrr um daginn og rakið hana heim að hlöðunni sem stóð á bak við fjárhúsin. Stökk það upp á hlöðumæninn sem ekkert væri og renndi sér svo niður af því og rölti að dyrunum. Þar sá dýrið síldarfötuna og fór að slafra í sig síldina.

Lögðu þá mennirnir af stað þrír saman og var sá þriðji aldraður maður á bænum. Gengu þeir fyrst umhverfis bæinn og allstóran sveig við dýrið. Bar þeim saman um að björninn hafi fljótlega tekið eftir þeim en þó haldið áfram að háma í sig síldina. Gengu mennirnir fyrir hlöðuhornið og upp á hlöðuna. Þaðan fór Guðmundur niður á nyrsta fjárhúsið.

Þegar björninn sá Guðmund tók hann undir sig eldsnöggt stökk í áttina til hans. Guðmundur hleypti þá af, beint framan í dýrið, sem féll aftur fyrir sig, en brölti þó á fætur og hopaði nokkra faðma út á túnið. Skaut Guðmundur þá aftur og hæfði að þessu sinni í hjartastað. Til vonar og vara skaut hann þriðja skotinu.

Þetta reyndist vera fullorðinn hvítabjörn, rauðkinnungur, en þeir voru jafnan taldir grimmastir og hættulegastir allra bjarndýra.