24/06/2024

Fimmtíu ára gömul grein um Hólmavík

Með tilkomu nútíma tækni, vefjarins og leitarvéla, er orðið miklu auðveldara en áður var að finna og skoða gamlar heimildir. Margvíslegt efni hefur verið skannað inn og er aðgengilegt á vefnum á vefjum eins og timarit.is þar sem hægt er að leita í blöðum og tímaritum, handrit.is þar sem hægt er að skoða myndir af gömlum handirtum og sarpur.is þar sem hægt er að skoða og leita í því efni sem söfnin á landinu hafa skráð þar inn. Hér birtir vefurinn strandir.saudfjarsetur.is grein um Hólmavík sem birtist í Morgunblaðinu fyrir 50 árum, nánar tiltekið í Lesbók Morgunblaðsins þann 5. júní 1966. Hún er skrifuð af Guðmundi Hraundal háskólakennara.

Hólmavík

Hví skyldi ég skrifa um Hólmavík og Hólmvíkinga öðru fremur? Þegar ég var í barnaskóla í Hafnarfirði, kom teiknikennarinn einu sinni með fallegar landslagsmyndir á stórum spjöldum. Myndirnar voru frá árstíðunum fjórum og voru einkennandi fyrir þær. Ég man sérstaklega eftir tveimur myndum; sumarmyndinni: sól skein í heiði og fólk var við heyþurrkun úti á túni, litbrigðalaust og flatt landslag. Öllum nema mér þótti hún fallegust, af því að þar var sumar og sól. Haustmyndin var af fallegum en lágreistum bóndabæ við lygnan fjörð, það var komið haust, fjörðurinn var spegilsléttur og baksviðið var há og stílhrein fjöll, sem spegluðust í fjarðarbotninum. Hvílík kyrrð og friður yfir þessari mynd, enda tók ég hana fram yfir hinar myndirnar. Hvað fær manni meiri friðar og sælu en fagurt haustkvöld? Og er það ekki einmitt friður, kyrrð, sem við þörfnumst mest? Það var ekki komin „atómöld“ þá, en þó kunni ég að meta þann frið og kyrrð, sem aðeins móðir náttúra getur veitt okkur inn til dala í faðmi blárra fjalla og við sævarströnd á lygnum kvöldum, þar sem báran gljáfrar við fjörusand.

Það var einmitt þessi friður, sem gagntók mig fyrst, þegar ég kom til Hólmavíkur, enda þá sumri tekið að halla, Steingrímsfjörður spegilsléttur, og báran bærði aðeins á sér í fjörusandinum, bæði norðvestan við eyrina, sem þorpið stendur á, og eins í Skeljavík. Síðan eru liðin mörg ár, og svo kom ófriður um allan heim og rak friðinn á brott hjá mörgum, ef ekki flestum íbúum á þessari jörð. En í Hólmavík getur maður enn fundið þennan sama frið, ef maður aðeins gefur sér tíma til að veita honum viðtöku. Og hvað er það svo, sem í Hólmavík, öðrum stöðum fremur, verkar þannig á mann? Jú, það er hinn fallegi Steingrímsfjörður, þetta friðsæla og afskekkta þorp, Borgirnar ofan við, fólkið, allt umhverfið, útsýnið beggja megin fjarðarins. Þar er ekki skógurinn! Í hæsta lagi kjarr og lyng upp af plássinu.

Áður fyrr var farin Dalaleiðin, þ.e. úr Gilsfirði yfir Steinadalsheiði, sem er há og brött og var alltaf illfær, sérstaklega Kollafjarðarmegin. Þar heita efst Rjúpnabrekkur. Svo var yfir Steinadalsá að fara á djúpu vaði, en nú sl. 17 ár hefur verið farin Hrútafjarðarleiðin, inn fyrir Bitrufjörð og út með honum að vestan og yfir Bitruháls, sem ekki virðist árennilegur, þegar maður sér Ennisfjall úr fjarlægð, en nú fer bíllinn þennan fjallveg án þess að hósta. Reyndar var það Dala-Brandur, vinur minn, sem fór þessa leið fyrstur á bíl, og síðan var lagður vegur eftir sömu slóðum, og má heita, að það sé skotvegur. Efst uppi á hálsinum er hlaðin varða, og er þaðan dásamlegt útsýni í björtu sumarveðri, jöklar og heiðar í suðri, Vatnsnes handan við Hrútafjörð, og sést alveg inn til Hvammstanga í Miðfirði, en svo utar og norðar Skagafjöllin, Kollafjörður við fætur manns, umkringdur fallegri og grösugri sveit, og loks Strandafjöllin í norðurátt í öllum sínum hrikaleik, eins langt og augað eygir.

Við ökum í beygjum niður að Broddadalsá, en þá tekur við greiðfær vegur inn fyrir Kollafjörð, og handan fjarðarins er nú kominn nýr og breiður vegur uppi í miðjum hlíðum, en áður var farin fjaran, og verð ég að segja það, að mér þótti það skemmtilegri leið, þótt seinfarnari væri, sérstaklega í góðu veðri, þegar fjörðurinn var spegilsléttur. Var þá venjan að heilsa upp á Karl og Kerlingu, tvo klettadranga, sem standa saman í fjöruborðinu, fara út úr bílnum, og teygja úr lúnum beinum, eftir langan akstur, og drekka eina kók, sem maður keypti í veitingaskálanum í Brú í Hrútafjarðarbotni. Nú eru eftir um 25 kílómetrar til höfuðstaðar Strandamanna, Hólmavíkur. En frá Brú til Hólmavíkur eru 120 kílómetrar. Leiðin, sem eftir er, er seinfarin á köflum, eftir að farið er framhjá kirkjustaðnum Kollafjarðarnesi og Hvalsá, sem er síðasti bærinn, áður en beygt er inn í Steingrímsfjörð.

Hér eru þverhnípt björg á aðra hlið, en fjaran og rekaviðurinn á hina, og framundan handan fjarðarins blasir við Grímsey, sem dregur nafn af fyrsta landnámsmanninum, er bjó víst reyndar á Stað fyrir botni fjarðarins. Á Grímsey er viti; annars engin byggð; hún er grösug hið efra en hömrum girt, og er þar mikið fuglalíf. Mjótt sund er milli Grímseyjar og lands handan fjarðarins, Grímseyjarsund, og dálítið innar á Selströnd er þorpið Drangsnes, útgerðarpláss. Fór ég einu sinni þangað fyrir mörgum árum með héraðslækninum í Hólmavík í foráttuveðri á opinni trillu og fékk nóg af. Fannst mér þar allt stinga mjög í stúf við snyrtimennskuna í Hólmavík. Það var á þeim árum, þegar þorpið var að byggjast, og þorskurinn óð á land. Nú er þar allt snyrtilegra, og þar er kominn barnaskóli með kapellu, annexíu frá Staðarprestakalli. Gálmaströnd heitir fyrst eftir að beygt hefur verið inn í Steingrímsfjörð; er þar upphleyptur vegur á sléttum eyrum, sjálfur vegarkaflinn er þráðbeinn og grár að lit, og þykir mér sennilegt, að ofaníburðurinn sé skeljasandur.

Ég man, að Ari Arnalds, sýslumaður, getur þess í endurminningum sínum, að hann hafi verið í heimsókn hjá þeim merka klerki séra Arnóri Árnasyni á Felli í Kollafirði seinni part sumars 1892. Þeir riðu þá til kirkju að Tröllatungu, sem var annexía frá Felli. Getur hann þess, að þegar þeir komu yfir á Gálma- eða Gálmarströnd, hafi þeir látið hestana spretta úr spori inn eyrarnar. Hvað orðið „Gálmar“ þýðir, er mér ókunnugt um.

Annars er fjölbreytt leið, það sem eftir er til Hólmavíkur, stundum fer maður alla leið niður í fjöru og yfir ársprænur, og reisuleg býli eru alla leið inn að Víðidalsá. Nú sjást ekki torfbæir, heldur myndarleg íbúðarhús úr steini sem og útihús, stór og rennislétt tún, svo útlit er fyrir almenna velmegun þarna. Bændur lifa þarna aðallega á kvikfjárrækt, svo að það er ekkert „smjörfjall“ í Hólmavík, enda engin mjólkurvinnsla þar. Fjallgarðurinn á vinstri hönd er hár, og skerast langir og djúpir dalir inn í hann, sem eru grösugir og gróðursælir, en nú eru aðeins tveir í byggð.

Fjöllin á milli þessara dala eru kallaðar heiðar, og hefur hver heiði sitt nafn eins og Heiðarbæjarheiði, Tunguheiði, Bæjardalsheiði og innar Laxárdalsheiði og Kollabúðaheiði, sem dregur nafn af Kollabúðum í Þorskafirði í Reykhólasveit, en þar var til forna þingstaður og sjást þess enn merki. Bæjardalsheiði dregur nafn af höfuðbólinu Bæ í Reykhólasveit, þar sem héraðshöfðinginn Magnús Ingimundarson bjó, en þar naut ég gestrisni og hvíldar hjá honum í mörg sumur, eða þangað til Magnús hætti búskap og lét jörðina í hendur sonum sínum þremur. Þar er því þríbýli nú, og mun þar vera eitt staðarlegasta og myndarlegasta býli hér á landi með þremur íbúðarhúsum og miklum túnum.

Innsti bærinn, áður en komið er til Hólmavíkur, er Víðidalsá. Þangað er staðarlegt heim að líta og þar bjuggu til skamms tíma Páll Gíslason og kona hans Þorsteinsína. Páll dó fyrir nokkrum árum, og búa nú synir hans þar. Páll byggði myndarlegt þriggja hæða steinhús á jörð sinni 1926, og öll eru útihúsin steinsteypt. Hefur það verið mikið þrekvirki að byggja svo veglegt steinhús, áður en Hólmavík komst í vegarsamband, en þetta sýnir dugnað og stórhug Páls. Þau hjón, Páll og Þorsteinsína, voru með afbrigðum gestrisin, og var Páll sérlega skemmtilegur maður, sem ávallt var gaman að sækja heim, því að hann hafði frá mörgu að segja og hafði líka yndi af heimsóknum. Mér er nú Ijúft og skylt að minnast þessara vina minna, þar sem við hjónin áttum svo oft ánægjulegar stundir; börnum þeirra vil ég líka þakka góða vináttu, sérstaklega Stefáni og Ragnheiði, sem ég kynntist mest. Þaðan liggur leiðin svo yfir Víðidalsá, yfir góða og breiða brú, inn fyrir Skeljavík og niður í Hólmavík.

Steingrímsfjörður er lengsti fjörður á Ströndum, víður yzt, en verður svona nokkuð jafnbreiður inn í Hólmavík, þar sem borgirnar ofan við Hólmavík ganga út í fjörðinn; þar snarmjókkar fjörðurinn um allan helming og breytir jafnframt um stefnu til norðvesturs, meira en áður, alla leið inn í fjarðarbotn. Í mynni fjarðarins eru miklar grynningar og misdýpi, og er því siglingaleið þar varhugaverð fyrir ókunnuga. Sérstaklega var hún það, áður en vitar komu í Grímsey og Hólmavík. Geta má þess, að mesta dýpi fjarðarins er milli Hólmavíkur og Selstrandar.

Áður en nokkur byggð varð í Hólmavík, komu kaupskip, aðallega skip lausakaupmanna, inn í Skeljavík, sem er falleg vík rétt utan við Hólmavík, og lögðu þar fleytum sínum. Fólkið kom svo af bæjunum með afurðir sínar og gerði kaup sín við kaupmennina, og var þá víst oft glatt á hjalla, því að vafalaust hafa þeir ekki sparað mjöðinn til að fá sveitafólkið til að kaupa sem mest; bændur fengu sér á kútinn og konur og ungmeyjar fengu sér skrautlega höfuðklúta og svuntur, m.a. Börn fengu upp í sig kandís, rúsínur og annað fínt. Svo voru keyptar kornvörur, kaffi og sykur og annað, sem með þurfti fyrir veturinn eða sumarið, því að sennilega hafa þessir kaupmenn komið bæði vor og haust.

Ég hef komizt að því, að elzta húsið í Hólmavík er Riishúsið, og var það byggt 1896 af Richard Pétri Riis, kaupmanni. Hann byggði einnig verzlunarhús á eyrinni, sem nú eru horfin. Riis verzlaði einnig á Borðeyri og Hvammstanga. Annað hús, sem enn stendur í Hólmavík og sómir sér vel, er gamla læknishúsið. Það mun vera byggt 1896 eða 1897, því að 1897 kemur Guðmundur Scheving Bjarnason til Hólmavíkur, og var hann fyrsti læknirinn, sem settist þar að, og var þar til 1909. Næstur eftir hann er Magnús Pétursson frá 1910-1922. Næstur á eftir honum kemur svo Karl G. Magnússon, sem var héraðslæknir í Hólmavík 1922-1941.

Eftir hann kemur Valtýr H. Valtýsson og er héraðslæknir þar til 1947. Meðan hann var héraðslæknir í Hólmavík, hafði ég bækistöð í sjúkraskýlinu, og tók hans góða kona, Steinunn Jóhannesdóttir, hjúkrunarkona, með glöðu geði okkur hjónin í fæði, þegar við vorum þar á sumrin. Þá var þar ekkert gistihús eða matsölustaður. Ég á sérstaklega ánægjulegar minningar frá þessu tímabili. Við Valtýr urðum vinir góðir, enda mjög líkt skapi farnir, að ég held. Hjá þessum góðu hjónum áttum við griðastað í sex sumur, fjórar til fimm vikur í senn. Valtýr varð fyrir því áfalli, sem ég vil kalla annan skæðasta sjúkdóm hérlendis, er nú á undanförnum árum hefur gætt í æ ríkari mæli (coronary tiirombosis). Læknar hér voru þá ekki almennilega farnir að átta sig á þessum skæða sjúkdómi, en nú hafa verið teknar upp árangursríkari mótaðgerðir, sem örugglega hafa bjargað mörgum manninum, og hefur verið stofnað félag (Hjartavernd) í þeim tilgangi að hamla á móti þessum vágesti, og vonandi á það eftir að bera mikinn árangur.

Valtýr læknir fékk svo Kleppjárnsreyki í Borgarfirði, eftir að hann gat tekið til starfa á ný, og þjónaði því héraði í tvö ár, oft sárþjáður, en Valtýr var karlmenni mikið og var ekki fyrir að hlífa sér. Mér þótti hann vera nokkuð kaldur á köflum að fara í langar ferðir í ófærð að vetri til, og þurfti hann þá oft að grípa til skóflunnar til að brjótast gegnum snjóskafla. Valtýr andaðist haustið 1949. Hann var afbragðs læknir og traustur persónuleiki; þótti Hólmvíkingum mikill mannskaði að missa hann, svo mikið traust báru þeir til hans.

Nú er komið nýtt og veglegt læknishús í Hólmavík, byggt um 1950; það er eitt stærsta og fullkomnasta læknishús á landinu með sjúkrastofum niðri og röntgentækjum, svo og lækningastofum og apóteki, auk húsnæðis fyrir hjúkrunarkonu; og á efri hæðinni er svo læknisíbúðin með fallegu útsýni yfir fjörðinn og sveitirnar í kring. Nú á seinni árum hafa Hólmvíkingar átt í mesta stríði með að hafa lækni um langan tíma í einu. Margir ágætir kandidatar og læknar hafa verið þarna síðustu 15 árin, einn kemur þá annar fer, og eru þessi eilífu læknaskipti mikill „höfuðverkur“ fyrir Strandamenn; þó hefði ég haldið, að þetta væri eitt af tekjuhærri læknishéruðum á íslandi. Síðastliðið haust fór þaðan ágætur læknir, Ísleifur Halldórsson, sem var búinn að vera þar um kyrrt í nokkur ár. Fólkið var farið að kynnast honum og bar til hans ótvírætt traust, en svo fór hann, þar sem hann fékk betra hérað nær höfuðstaðnum. Þetta er afleitt fyrir íbúana á Ströndum, og stundum hafa þeir verið læknislausir vikum saman og hafa þá orðið að treysta á lækninn á Reykhólum, en þá er yfir heiðar að fara og gæti orðið torsótt og afdrifaríkt að vetri til, bæði fyrir sjúkling og lækni, því að alvarleg slys getur borið að höndum á Ströndum norður eins og annars staðar, og getur þá oft oltið á fáum klukkustundum, eða jafnvel mínútum, að sjúklingurinn komist undir læknishendur, ef hann á að halda lífi.

Þegar ég kom fyrst til Hólmavíkur, var þetta frekar óskipulegt þorp á eyrinni neðan við Borgirnar, húsin voru timburhús, nema 6 eða 7 steinhús. Þar var gamall barnaskóli frá aldamótum, þar sem ég hafði fyrstu bækistöð mína. Þetta steinhús þjónar nú því hlutverki að vera slökkvistöð þorpsins. Á nokkrum húsum eru kassar með gleri fyrir, sem í eru brunalúðrar, og eru þeir þeyttir, ef elds verður vart. Nú hafa bætzt við mörg steinbyggð hús, og bærinn hefur byggzt upp í Borgirnar og út með víkinni. Þar er yzt sýslumannshúsið, sem var byggt fyrir um 25 árum, og var mikið af viðum þess fengið úr Kálfanessbænum, sem hefur verið í eyði síðan, þó að Hólmvíkingar hafi heyjað þar fram á þennan dag og ræktað mýrarflákann milli Kálfaness og fellsins fyrir ofan. Í Kálfanesi er eitt rómantískasta bæjarstæði, sem ég hef komið á, og gott er að koma þangað á sólbjörtum sumardegi og reika þar um túnið, sem er allstórt en mishæðótt. Allt bendir til, að þar hafi lengi verið búið, t. d. götur og slóðar í kvosinni ofan við bratt túnið.

Presturinn situr nú lengi á hinu forna prestsetri, Stað í Steingrímsfirði. Síðasti presturinn, sem þar sat, var Ingólfur Ástmarsson, biskupsritari. Frá 1948 hefur séra Andrés Ólafsson verið prestur í Staðarprestakalli, en setið í Hólmavík. Prófastur Strandaprófastsdæmis hefur hann verið frá 1951. Margur, sem til Hólmavíkur kemur, fer þaðan, án þess að sjá hús prófastsins, og er það vegna þess, að þetta fallega hús er byggt innan við klettaranann, sem gengur ofan úr Borgunum í sjó fram niður í fjöruna vestan á eyrinni sem Hólmavík stendur á. Þarna er smávík og upp af henni stór kvos með dálítið undirlendi, og er þarna allt grasi vafið. Húsið stendur niðri við veginn, sem er ofan fjöruborðsins. Þarna er skjólsælt og einkar vinalegt. En vegna sjávarseltu hefur prófastinum gengið illa með trjárækt. Þarna stendur nú fallegasta húsið í Hólmavik, og ber allt húsbændunum vitni um sérstaka snyrtimennsku úti sem inni. Hér er gott að koma, og eiga prófastshjónin sammælt í því að taka öllum vel, enda leiðist engum við glaðværar og skemmtilegar samræður við þessi mætu hjón. Á neðri hæð hússins er kapella og skrifstofa prófastsins m.m.

Kirkja, stílhrein og falleg, byggð á klöpp hátt yfir sjávarmáli í miðjum bænum, hefur nú verið í byggingu frá 1951 eða 1952, og verður ekki annað sagt en það sé orðin langdregin kirkjusmíði hér á landi, og þó er kostnaður hennar ekki nema lítill hluti samanborið við milljónakirkjubyggingar, eins og t. d. hina nýtízkulegu og að mínum dómi afkáralegu kirkju í Ólafsvík sem hefur ekki tekið nema tvö til þrjú ár að koma upp í þessa svimandi hæð, bæði frá byggingalegu og fjárhagslegu sjónarmiði. Kirkjan í Hólmavík stendur á hárri klöpp, sem skagar fram í mitt þorpið í sjó fram, en neðan við hana er vegurinn greyptur í bergið. Það má því segja, að hún gnæfi yfir bæinn. Kirkjan er látlaus, og má hver maður sjá, að þetta er kirkja, en ekki eitthvert „abstrakt fígúruverk“, sem því miður eru nú víða að stinga upp kollinum. Hólmvíkingum hefur verið fjár vant til að ljúka smíði kirkjunnar, hefur því verið messað í barnaskólanum í öll þessi ár. Á sumri hverju hefur verið haldinn kirkjudagur, merki seld og skemmtanir haldnar til að efla kirkjusjóðinn. Sl. sumar var unnið dálítið við hana að innan, en að utan er hún svo til fullgerð. Kæmi svo ljósakross á kirkjuna, myndi það ljós sjást langt að, bæði af sjó og landi, og verða ljósviti, sem næði að lýsa inn í hug og hjörtu þeirra, sem þarna búa á dinnnum og löngum skammdegiskvöldum. Kirkjuna teiknaði Gunnar Ólafsson, arkitekt, sem var skipulagsstjóri Reykjavíkur um tíma, en dó ungur. Gunnar var bróðir séra Andrésar, og gaf hann verk sitt. Sömuleiðis teiknaði hann prestshúsið í Hólmavík.

Rafmagnsstöð var byggð við Þiðriksvallavatn um 1950. Það er stöðuvatn, fjöllum girt, nema þar sem stöðin er, en þar rennur það um þröng gljúfur og djúp og síðan áfram niður í Víðidalsá, sem rennur svo í sjó fram. Neðan við fyrrnefnd gljúfur var gerð stífla og byggt stöðvarhús, og er það kallað Þverárvirkjun. Nú hafa því allir í nágrenninu nægilegt rafmagn, bæði til ljóss og hita og hvers sem vera skal. Vatnið hækkaði töluvert við stíflugerðina, svo að jörðin Þiðriksvellir fór undir vatn, en þar var áður tvíbýli. Jörðin Vatnshorn við norðvesturhorn vatnsins er líka komin í eyði, þótt hún hafi ekki farið undir vatn. Ég kom einu sinni að Þiðriksvöllum ásamt konu minni og syni Magnúsar í Bæ, sem hafði sent hann eftir okkur norður yfir heiðar á hestum, til að sækja okkur. Ragnheiður húsfreyja, sem nú býr í Tröllatungu ásamt manni sínum Daníel, fylgdi okkur þá upp í fjöllin, svo að við fyndum réttan götuslóða, og fórum við þá Laxárdalsheiði. Tröllatunguheiði hafði ég farið tvisvar áður ríðandi. En sl. sumar fór ég hana úr Geiradal og norður yfir á Mercedes-Benz-bíl, og hygg ég, að það sé fyrsti bíllinn af þeirri tegund, sem hefur farið þessa leið. Veginn þarf að bæta mikið, til þess að hann verði fær flestum bílum, sérstaklega að sunnanverðu, í brekkunum, þar sem hann er einna verstur: brattur, stórgrýttur og laus í sér, og svo eru nokkrir kaflar á háheiðinni, sem eru illfærir, jafnvel í þurrviðri.

Lengi vel voru Hólmvíkingar í vatnshraki, en nú hafa þeir fyrir mörgum árum bætt úr því með vatnsleiðslu ofan af fjöllunum, sem er um þrír kílómetrar á lengd niður í þorpið. Reistur hefur verið stór vatnsgeymir ofan við bæinn.

Nú er komið gistihús í Hólmavík, og þurfa menn ekki að fælast staðinn þess vegna, en til skamms tíma hefur þar hvorki verið um gistihús eða greiðasölu að ræða.

Hrútafjarðarleiðin finnst mér einkar skemmtileg, sérstaklega í góðu veðri. Í Guðlaugsvík er greiðasölustaður og gott að staldra þar við og fá sér kaffisopa, áður en maður leggur á brattann inn fyrir Bitrufjörð og út að Ennisfjalli og þar yfir hálsinn. Það má segja að nú sé kominn upphleyptur vegur frá botni Hrútafjarðar til Hólmavíkur, en áður lá vegurinn í bugðum, ýmist niðri í fjöru eða uppi í brekkum, og fannst mér sá vegur, þótt einkennilegt megi virðast, öllu skemmtilegri, fjölbreytilegri en hinn nýi beini vegur. Nú eru líka komnar brýr á allar ár og lækjarsprænur, og var það mikil bót og góð.

Þarna í Hólmavík er nýleg símstöð og pósthús. Þegar ég kom fyrst til Hólmavíkur, stjórnaði þessum fyrirtækjum Hjálmar Halldórsson, og má segja að hann væri einn af þeim mönnum, sem settu svip á bæinn, enda ágætur og skemmtilegur maður. Hjálmar varð bráðkvaddur fyrir nokkrum árum og var harmdauði þeim, sem þekktu.

Eins og áður er sagt, er nokkuð komið af nýjum húsum frá því að ég kom fyrst til Hólmavíkur. Barnaskóli var byggður í Hólmavík á árunum 1946-1948, og er hann ofan við plássið, og er þaðan fagurt útsýni út yfir fjörðinn og sveitirnar í kring. Þar hef ég nú síðastliðin 17 ár haft bækistöð mína í stórri og rúmgóðri stofu. Þar hefur oftast verið messað, síðan séra Andrés varð prestur í Hólmavík. Kaupfélagið hefur þarna myndarleg hús, verzlunarhús, frystihús og sláturhús, og hefur nokkuð margt fólk í vinnu þar, sérstaklega ef vel fiskast, en nú hin síðari ár hefur „sá guli“ svo að segja gersamlega brugðizt. Menn voru að vona, að þetta lagaðist við útfærslu landhelginnar, en því miður hefur þar engin breyting orðið til batnaðar. Áður fyrr voru miklar fiskgöngur inn Húnaflóann, bæði með Ströndum fram og eins inn með Vatnanesi, og þótti sá fiskur betri sem gekk inn í Miðfjörð. Fóru menn þá oft yfir flóann, en aðrir létu sér nægja að fara út í fjarðarmynnið og fylltu kænur sínar á svipstundu. Eins og kunnugt er, hefur ekki veiðzt síld á Húnaflóa í nærfellt 20 ár, en áður gekk töluverð síld þar inn og voru þá reistar hinar miklu síldarverksmiðjur í Djúpavík og Eyri í Ingólfsfirði á Ströndum og á Skagaströnd. Þessar síldarverksmiðjur á Ströndum ryðga nú, bæði í Djúpavík, þar sem flest íbúðarhús standa nú auð, og eins á Eyri.

Bátur hefur gengið einu sinni í viku allt norður í Árneshrepp frá Hólmavík, en í sumar kemst væntanlega á vegasamband alla leið þangað norður.

Áður var greiður vegur norður í Kaldbaksvík, en síðastliðið sumar var unnið ötullega að lagningu vegar þaðan, sem skyldi tengjast vegakerfinu í Árneshreppi; liggur vegurinn með sjó fram til Djúpavíkur og þar út ströndina að Gjögri, en þar er ljósviti. Nú eru allar Norður-Strandir komnar í eyði. Nyrzti bærinn er að Dröngum, sem er alllangt fyrir norðan Ófeigsfjörð en sá fjörður fór í eyði síðastliðið haust. Enginn sími er að Dröngum, heldur er þar talstöð, sem fólkið getur notað til að komast í samband við umheiminn, en næsta símstöð er að Eyri. Á Dröngum er mikið um rekavið. Í Morgunblaðinu nú fyrir skömmu gizkaði Kristinn bóndi að Dröngum á, að svo mikið hefði rekið á sína fjöru undanfarið, að það myndi nægja í 10-15 þús. girðingarstaura, og væru trén um tíu metra löng og 50 tommur í þvermál. Er það ekki svo lítill búbætir, og veitti honum sannarlega ekki af sögunarvél til að vinna úr þessum mikla rekaviði.

Áður hef ég minnzt á elzta hús, sem ég tel vera byggt í Hólmavík, þ.e.a.s. Riishúsið. Stendur það enn á sínum stað, en er nú autt, síðan vinur minn Friðjón Sigurðsson, sem þar bjó í 3-5 ár, fluttist hingað suður. Það er ekki hægt að minnast á Hólmavík, án þess að hans sé getið um leið. Hann var sýsluskrifari m.m. í Hólmavík í 20 ár, frá því að sýslumaðurinn fluttist til Hólmavíkur frá Borðeyri. Friðjón minnti mig alltaf á Inga T. Lárusson; báðir voru þéttir á velli; Ingi var þó töluvert hærri maður en Friðjón, og báðir voru léttir í skapi, og brandararnir fuku af þeim, ef svo bar undir.

Kristján Jónsson kennari og kaupmaður er vinmargur maður. Hann hefur einu bókabúðina, sem er í Hólmavík, hann hefur látið hreppsnefndarmál til sín taka og er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðarkjördæmi. Ég hef þekkt Kristján síðan ég kom fyrst til Hólmavíkur, og eru hjónin bæði skemmtileg og ágætis manneskjur. Hef ég haldið til hjá þeim hin seinni ár, sem ég hef verið í Hólmavík.

Annar kennari við skólann í Hólmavík er Finnur Magnússon, vinur minn, og er hann ágætur listmálari og drengur góður. Hann á íbúð í Reykjavík, en í sumar kaus hann, eins og oft áður, að vera heima í Hólmavík og helga sig list sinni. Er það ætlan mín, að hann sé nokkuð hlédrægur að sýna málverk sín og geri meira af því að gefa þau en selja.

Nú í sumar leið var loksins verið að byggja skólastjórahús rétt sunnan við skólann, og virtist mér það allmyndarlegt ásýndum. Gekk smíði þess vel. Minn góði vinur, Vígþór skólastjóri, og hans ágæta kona, Sjöfn kennari, eiga líka skilið að fá nú loksins betra hús en það, sem þau hafa orðið að notast við undanfarin ár. Vígþór Jörundsson er búinn að vera skólastjóri þar sl. 7 ár, hann er kvæntur Sjöfn Ásmundsdóttur, sem kennir líka við skólann, en auk þess er hún í hreppsnefnd, og mun það vera fágætt, að konur skuli vera í slíku stússi úti á landsbyggðinni. Það má segja, að Hólmavík hafi orðið fræg um víða veröld fyrir fimm til sex árum. Þá var efnt til samkeppni meðal skólabarna (tíu til tólf ára) í dráttlist eða teikningu. No. 1 var barnaskólinn í Hólmavík, og var Vígþór orðinn skólastjóri og kenndi m.a. teikningu. Ungi listamaðurinn, sem verðlaunin hlaut, var sonur séra Andrésar. Ég man, að ég sá þessa mynd í Morgunblaðinu, og var af hesti. Vígþór er líka listrænn, eins og hann á kyn til, því að hann er sonur völundarins og skáldsins, Jörundar á Hellu. Vígþór er mikill ágætismaður og lætur sér mjög annt um skólann sinn og skólamál þar nyrðra m.m.

Það er ætlun manna, að Steingrímsfjörður hafi í fyrndinni orðið til vegna umbrota undir jarðskorpunni, og þarna hafi svo orðið mikið jarðsig, þar sem fjörðurinn er nú. Er margt, sem rennir stoðum undir þessa skoðun. Botn fjarðarins er mjög ósléttur, og sums staðar eru grynningar. Misdýpi er mikið allt inn til Hólmavíkur, þar sem fjörðurinn mjókkar en þar snardýpkar hann á milli stranda. Eitt er það, sem sérstaklega bendir á þetta, og það er Selströndin norðvestan fjarðarins. Þar skiptast á klettabelti og grónir stallar, sem snarhallar frá efstu brún og í sjó fram. Ekki er þó þessi halli jarðlaganna láréttur fram með ströndinni, heldur hallar þeim skáhallt innan og ofan frá brún á móts við Bassastaði og skáhallt út ströndina alla leið út á Reykjanes, svo að segja óslitið. Þetta er svo ótvírætt tákn um jarðrask og jarðsig, að betra getur varla verið. Borgirnar ofan við Hólmavík hafa líka fengið sinn „omgang“ því að það er eins og þær steypist kollhnís út í fjörðinn ofan Hólmavíkur; þar skiptast á grasgeirar og klettastallar upp á efstu brúnir. Þó er þetta ekki eins reglulegt þar og á Selströndinni. Í Borgunum er meira um lárétta stalla, sérstaklega neðan til, og þar byggja menn nú hús sín. En eitt er víst: það eru margir grasigrónir geirar þarna í Borgunum, þar sem gott er að liggja og sóla sig á góðviðrisdögum. Sunnan fjarðarins er þetta ekki eins áberandi, þótt landinu halli þar að vísu meira og minna í sjó fram, þar má þó víða sjá ótvíræð merki um jarðrask og jarðsig niður að firðinum. Þetta er eitt af þeim fyrirbrigðum, sem gera útsýnið frá Hólmavík svo sérstakt og rómantískt.

Jarðhiti er í Hveravík á Selströnd úti undir Reykjanesi niður við sjó, og hefur nú verið byggð þar ágæt sundlaug. Nú er kominn vegur alla leið þangað. Mun láta nærri að þangað sé um 30 km. vegalengd frá Hólmavík.

Þess má líka geta, að fremst á eyrinni, sem Hólmavík stendur á, eru klettastallar, og þaðan liggja sker sem ganga út og suður í sjóinn.

Eitt þeirra er mest (Hólminn), og á fjöru koma þessi sker svo að segja óslitið upp úr sjónum og mynda þannig höfn frá náttúrunnar hendi.

Sýslumannsembættið var flutt frá Borðeyri til Hólmavíkur 1938. Síðasti sýslumaður á Borðeyri var Halldór Kr. Júlíusson, en fyrsti sýslumaður í Hólmavík var Jóhann Salberg Guðmundsson, frá 1938 til 1958. Frá 1958 hefur Björgvin Bjarnason verið sýslumaður, og held ég, að ég megi segja, að báðir þessir menn hafi verið vel látnir af sýslubúum.

Ég gleymdi að geta þess í sambandi við Víðidalsá og Stað, að þar er veiði nokkur, og hefur áin verið leigð út um langan tíma. Víðidalsá er almikil laxveiðiá, aftur á móti er í Staðará aðallega um silungsveiði að ræða, þó að eitthvað gangi í hana af laxi.

Margt gæti ég sagt meira um menn og málefni þar nyrðra. Hólmvíkingar eru yfirleitt léttlyndir og félagslyndir menn, sem gaman er að blanda geði við, og á ég þá bæði við þá, sem eru þar enn, og hina, sem burt eru fluttir. Halda þeir því skemmtanir ýmiss konar og dansleiki. Það háir Hólmvíkingum mjög, að þá vantar gott samkomuhús, því að samkomuhúsið, sem þeir hafa orðið að notast við í mörg ár, er orðið alls ófullnægjandi. Aftur á móti er komið myndarlegt félagsheimili með leiksviði á Kirkjubóli, og heitir það Sævangur. Verða Hólmvíkingar því að gera sér það að góðu að sækja allar meiri háttar skemmtanir þangað.

Aðalvandamálið í Hólmavík núna og undanfarin ár er atvinnuleysið, og það sem verra er: þá vantar stærri og nýrri skip. Þeir eiga fimm báta, 28-35 tonn, og fjóra báta 10 tonna fyrir utan trillur. Stærstu bátarnir eru of litlir til að elta síldina norður og austur fyrir land. En á hverju lifir þá fólkið í Hólmavík? Loftinu? Já, auðvitað, en þó að Hólmvíkingar séu nægjusamir, þá dugir það ekki til. Fleira þarf að koma til ef menn eiga að haldast þarna við. Allir vinna þorpsbúar, ef vinnu er að fá. Eins og ég hef áður sagt eru þeir nægjusamir, og aldrei hef ég heyrt þá kvarta. Ég held, að barlómur (og ég hef reyndar kynnzt því) fari mjög eftir byggðarlögum.

Bryggja er þarna nýleg, járnuð utan, en „massiv“ hið innra, svo að þar geta lagzt stór hafskip. Áður var þarna löng og sterkbyggð trébryggja og var hún gerð úr rekaviði af Ströndum, enda er víst hvergi meiri rekaviður hér við land. Svo er þarna stórt síldarplan, sem ekki hefur verið notað í um 20 ár, enda orðið feyskið, eins og ég komst áþreifanlega að, þegar ég var rétt búinn að missa bílinn minn þar niður fyrir nokkrum árum.

Ég man þá tíð, þegar þarna var söltuð síld, og allir, sem vettlingi gátu valdið, unnu af kappi. Nú er það löngu liðinn tími; en eitt er víst, að þarna verður hið opinbera að hlaupa undir bagga og koma til móts við þetta þrautseiga fólk, sem um langan tíma er búið að þreyja þarna atvinnuleysi við óblíð veður og löng skammdegi, og bíða eftir þeim gula og síldinni, sem getur orðið löng bið enn. Það er þó fjarri mér að ætlast til þess, að ríkið hlaupi alls staðar undir bagga, en Hólmavík hefur sérstöðu, bæði hvað atvinnuleysi snertir og fjarlægð frá höfuðstaðnum. Fyrir 15-20 árum var sett á stofn niðurlagningarverksmiðja fyrir smásíld, en það fyrirtæki stóð ekki lengi. Því miður var það, eftir því sem ég bezt veit, kæft í fæðingunni.

Í Hólmavík eru nú um 400 íbúar, en síðastliðið haust fluttust þaðan um 20 manns, og ef ekkert yrði gert, héldi flóttinn áfram, og geta menn séð að við svo búið má ekki standa. Þarna vantar einhvern sterkan mann til framkvæmda og forystu. Þetta fallega pláss með mörgum nýjum húsum og ágætum skilyrðum bæði á sjó og landi verður að efla og styrkja, svo að fólkið, sem þar býr og vill búa, megi búa við öryggi og traust á framtíðinni. Það hefur til þess unnið.

Guðmundur Hraundal
20. marz 1966.

ATH. Greinin er birt hér óbreytt, en nokkru skakkar með byggingarár elstu húsa í henni. Riis-hús er byggt 1897 og Guðmundur læknir Scheving bjó fyrstu árin á Smáhömrum en reisti hús á Hólmavík 1903.