11/10/2024

Sýning á handavinnu Pálínu frá Finnbogastöðum

Frá því er sagt á fréttavefnum www.litlihjalli.is að nokkrar konur hafa tekið sig saman um að halda sýningu í sumar á handavinnu frú Pálínu Jennýjar Þórólfsdóttur frá Finnbogastöðum í Árneshreppi. Hugmyndina átti Jóna Ingibjörg Bjarnadóttir og fékk til liðs við sig Guðbjörgu Þorsteinsdóttur í Bæ, dóttir Pálínu, og Evu Sigurbjörnsdóttur hótelstjóra í Djúpavík. Hugmyndin er að sýningin verði uppi við í sumar í Djúpavík. Tilefnið er að Pálína er níræð á árinu, og á reyndar afmæli í dag. Hún er mikil hagleikskona og kenndi við Finnbogastaðaskóla til fjölda ára.

Pálína er fædd í Litlu-Ávík 17. febrúar 1921. Móðir hennar Jóhanna Guðbjörg Jónsdóttir (f. 2. mars 1899, d.  5. október 1928) var aðeins 29 ára að aldri þegar hún lést frá sex ungum börnum sínum. Pálína var aðeins sjö ára þegar móðir hennar féll frá og var börnunum komið fyrir á ýmsum bæjum í sveitinni. Pálínu var komið fyrir á Finnbogastöðum og giftist hún síðar Þorsteini Guðmundsyni bóndasyni þar og tóku þau við búinu. Börn þeirra eru Guðmundur sem býr á Finnbogastöðum og Guðbjörg sem býr í Bæ. Faðir Pálínu var Þórólfur Jónsson (f. 11. september 1890, d. 21. apríl 1964). Pálína Jenný býr nú á Akureyri á dvalarheimilinu Hlíð.

Nú er farið þess á leit við fyrrum nemendur Pálínu við Finnbogastaðaskóla bæði stelpur og stráka að lána handverk á hina fyrirhuguðu sýningu í vor. Þeir sem vilja lána handvinnu eða handverk eru beðnir að hafa samband við eftirfarandi konur: Jónu Ingibjörgu Bjarnadóttur í símum 555-4256 og 691-1403, Evu Sigurbjörnsdóttur 451-4037 og 847-2819 eða Guðbjörgu Þorsteinsdóttur í síma 451-4012.