19/09/2024

Sveitarstjórnir á Ströndum álykta

Töluverð umræða hefur verið um vegamál á Ströndum síðustu mánuði, enda finnst mörgum íbúum á svæðinu að þeir hafi verið illa sviknir við framlagningu vegaáætlunar fyrir árin 2005-8 á Alþingi. Eru vegamálin til dæmis til umræðu í spjalltorgi þessa vefjar þessa dagana. Nú liggur fyrir sameiginleg ályktun sveitarstjórna Strandasýslu um að staða vegamála á svæðinu sé óásættanleg og hefur hún verið send yfirvöldum samgöngumála:
 

  

„Sveitarstjórnir í Strandasýslu mótmæla harðlega nýrri samgönguáætlun og telja það óforsvaranlegt að ekkert eigi að gera í vegaframkvæmdum í Strandasýslu næstu fjögur árin. Vegir um sýsluna eru víðast hvar nánast ónýtir en um þá fer allur þungaflutningur til svæðisins og norðanverðra Vestfjarða. Miðað við óbreyttar forsendur er talið að vegurinn frá Brú til Hólmavíkur verði alveg ónýtur eftir tvö ár. Því er gerð sú krafa að veitt verði nægu fjármagni til sýslunnar svo ljúka megi þeim vegaframkvæmdum sem nauðsynlegar eru og hafa verið tíundaðar við samgönguráðherra og þingmenn og hjálagðar eru til Samgöngunefndar. Allt annað er óásættanlegt eigi byggð að þrífast í Strandasýslu."