12/09/2024

Strandamenn í toppbaráttu

Nú eru aðeins þrjár keppnir eftir af Formúlu 1 á þessu tímabili og hefur dregið mjög til tíðinda undanfarnar vikur. Það eru þó ekki aðeins þeir Alonso og Schumacher sem standa í ströngu þessa dagana, því sveitin strandir.saudfjarsetur.is er enn í efsta sæti í Liðsstjóraleik vefjarins formula.is. Deildin samanstendur af fjölmörgum Strandamönnum og fleiri áhugasömum formúluáhugamönnum og hefur hún verið í toppbaráttunni allt frá upphafi. Heldur hefur þó saxast á forskotið undanfarnar vikur og nú mega meðlimir sveitarinnar hafa sig alla við til að halda fyrsta sætinu.

strandir.saudfjarsetur.is er rétt rúmlega 100 stigum á undan næstu sveit og sá munur getur verið fljótur að minnka. Það verður því afar spennandi að sjá hver staðan verður eftir lokaumferðina því það er til mikils að vinna; sigursveitinni allri verður boðið (ásamt einum gesti á mann) til hátíðarkvöldverðar á Kaffi Hveró í Hveragerði og verður allt innifalið – rútuferð frá Reykjavík, hátíðarkvöldverður og skemmtiatriði. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is mun að sjálfsögðu fylgjast vandlega með framvindu mála næstu vikur, en áhugasamir geta kíkt á vefinn lidsstjori.formula.is til að skoða stöðuna eftir hverja keppni.