13/09/2024

Síminn svarar ekki fyrirspurn

Á vefsíðu þar sem þjónustuver Símans er kynnt kemur fram að öllum fyrirspurnum sem þangað berast sé svarað innan eins virks dags. Þetta virðist þó ekki eiga við um fyrirspurnir frá strandir.saudfjarsetur.is og kannski ekki frá landsbyggðinni almennt. Á mánudag sendi strandir.saudfjarsetur.is fyrirspurn um símabilun í Bitrufirði og Kollafirði síðastliðinn laugardag, en eins og kunnugt er varð þá alvarlegt slys sem ekki var hægt að tilkynna um strax vegna símabilunar. Var óskað eftir upplýsingum um af hverju bilunin stafaði, hversu lengi hún hefði varað og hversu útbreidd hún hefði verið. Ekkert svar hefur borist.


Bilun sem þessi hlýtur að teljast grafalvarlegt mál, sérstaklega þar sem hún verður á svæði þar sem ekki er GSM-samband og því engin önnur leið til að koma neyðarkalli á framfæri.