14/09/2024

Selaskoðun við Kirkjuból


Öllum er velkomið að fara í fjöruferðir á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og þar getur verið margt að skoða. Skeljar og rekadrumar setja svip á fjöruna á Kirkjubóli og landselir liggja oft þar á flúrum þegar fjara er eða svamla um nærri landi. Selurinn er forvitinn og ef menn syngja fyrir hann eða blístra lög kemur hann oft býsna nálægt til að kanna hvað um er að vera. Þetta verður því skemmtun sem báðir aðilar hafa gaman af, sela- og mannaskoðun. Landselur er algengasti selur við Ísland og getur orðið um 2 metrar að lengd og rétt yfir 100 kíló að þyngd fullvaxinn. Brimlarnir eru stærri en urturnar.

Á vef Selasetursins á Hvammstanga – www.selasetur.is – kemur fram að urtur kæpa einum kópi í júní og ala önn fyrir honum í 3-4 vikur. Kóparnir eru um 80 sentimetrar að lengd og 10 kíló að þyngd við fæðingu. Að kópauppeldi loknu fara dýrin úr hárum. Því líkur í ágúst og fer þá mökunin fram. Eftir mökun fara dýrin utar og halda til við útsker í ætisleit. Landselir ferðast lítið og einungis ung dýr flakka landshorna á milli. Eldri dýr koma ár eftir ár á sömu slóðir til kæpinga, líklega á æskuslóðirnar.

Landselsstofninn á Norðurhveli telur um 400.000 dýr, en fer minnkandi vegna víruspestar í Norðursjó. Við Ísland var landselsstofninn árið 2003 einungis um 10.000 dýr, eða þriðjungur þess sem hann var árið 1980. Fækkunin hefur mest orðið í Breiðafirði, Faxaflóa, við Suðurströndina og Austfirði. Árið 2003 voru flestir landselir á svæðinu frá Ströndum til Skaga (við Húnaflóa).

 0

Selur

frettamyndir/2012/645-selsi10.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi8.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi6.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi5.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi9.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi3.jpg

frettamyndir/2012/645-selsi11.jpg

Í fjöruferð á Kirkjubóli 20. október – ljósm. Jón Jónsson