25/04/2024

Samningur um framhaldsdeild á Hólmavík undirritaður

framhaldsd1

Í dag var sannkallaður gleðidagur á Hólmavík því undirritaður var samningur um dreifnám á Hólmavík. Það eru Strandabyggð og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra sem standa að því námi og fékk námið stuðning af fjárlögum fyrir árið 2013 sem fjögurra ára tilraunaverkefni. Nú gefst nemendum á Ströndum færi á að stunda framhaldsnám í heimabyggð og hófst námið nú haustið 2013. Frá og með haustinu 2014 verða hægt að taka tvö fyrstu námsárin á Hólmavík.

 Í tilefni af undirritun samningsins var athöfn í Hnyðju og síðan opið hús hjá framhaldsdeildinni og öðrum sem aðstöðu hafa í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Það er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir sem er umsjónarmaður með dreifnáminu á Hólmavík.

Fyrir hönd skólans á Sauðárkróki ritaði Ingileif Oddsdóttir skólastjóri Fjölbrautaskólans undir samninginn, en Andrea Kristín Jónsdóttir og Jón Gísli Jónsson fyrir hönd Strandabyggðar. Erindi héldu Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir umsjónarmaður, Ingibjörg Hjartardóttir nemandi í deildinni, Ingileif Oddsdóttir skólastjóri og Andrea Kr. Jónsdóttir sveitarstjóri, auk þess sem Andrea Messíana Heimisdóttir nemandi í deildinni söng fyrir gesti.