05/11/2024

Sameining verkalýðsfélaga í Hrútafirði

 Það sem af er þessu ári hefur verið að störfum undirbúningsnefnd um sameiningu Verkalýðsfélags Hrútfirðinga og Stéttarfélagsins Samstöðu. Þeirri vinnu lauk með því að þann 31. október sl. var boðað til stofnfundar nýs verkalýðsfélags að Staðarflöt í Hrútafirði. Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir formaður Verkalýðsfélags Hrútfirðinga flutti skýrslu undirbúningsnefndar að sameiningunni. Þar kom fram að tiltölulega auðvelt var að samræma lög félaganna, þar sem bæði var stuðst við fyrirmyndarlög ASÍ, en meiri yfirlegu þurfti til að setja saman reglugerð sjúkrasjóðs hins nýja félags, því eldri reglugerðir félaganna voru um margt ólíkar. Góð lending náðist í því og farin var sú leið að styðjast við það sem betur var gert við félagsmenn hjá hvoru félagi um sig. 

Einnig kom fram í máli Ingibjargar að góð samstaða hefði verið um það hjá undirbúningsnefndinni að nafn hins nýja félags yrði Stéttarfélagið Samstaða. Það nafn hefði ekki tilvísun í ákveðið landsvæði og orðið samstaða væri gagnsætt og bæri í sér það sem verkalýðsfélög ættu að standa fyrir nú sem fyrr. Félagssvæði hins nýja félags væri Húnavatnssýslurnar báðar og Bæjarhrppur í Strandasýslu.

Ingibjörg Rósa rakti stuttlega sögu Verkalýðsfélags Hrútfirðinga og sagði frá því að félagið hefði verið stofnað á tímum heimskreppunnar á fjórða áratugnum, nánar tiltekið í febrúar 1934 og hefði því náð því að verða 75 ára. Það hefði í upphafi heitið Verkalýðs- og smábændafélag Hrútfirðinga en nafni þess hefði fljótlega verið breytt í það sem síðan hefur haldist. Hún minntist á Borðeyrardeiluna svonefndu og sagði frá merkilegum gögnum úr starfi félagsins.

Ný lög og reglugerðir voru síðan lögð fyrir stofnfundinn og samþykkt. Einnig var kosið í stjórn hins nýja félags og stjórnir sjóða. Ásgerður Pálsdóttir formaður Stéttarfélagsins Samstöðu er formaður hins nýja félags. Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands var gestur fundarins og flutti ræðu og bar fundinum kveðjur Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ og Kristjáns Gunnarssonar formanns SGS. Skúli þakkaði Verkalýðsfélagi Hrútfirðinga fyrir þátt þess í sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og óskaði hinu nýja stéttarfélagi velfarnaðar í störfum. Það var mál manna að jákvæðni og eining hefði ríkt á fundinum.

Inn á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands má lesa skrif Skúla Thoroddsen um sameininguna og sögu Verkalýðsfélags Hrútfirðinga, sér í lagi Borðeyrardeiluna, sjá nánar undir þessum tengli.

Undirbúningsnefnd um sameiningu Verkalýðsfélags Hrútfirðinga og Stéttarfélagsins Samstöðu. Frá vinstri:  Stefanía Garðarsdóttir, Kristín Guðbjörg Jónsdóttir, Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir, Ásgerður Pálsdóttir og Hólmfríður Bjarnadóttir.