24/04/2024

Þjóðleikur á Vestfjörðum – viltu vera með?

645-alltahreinu8
Vestfirskum ungmennum á aldrinum 13-20 ára gefst nú í fyrsta skipti tækifæri á að vera með í verkefninu Þjóðleikur sem er risastórt leiklistarverkefni á landsbyggðinni. Þjóðleikhúsið stendur fyrir verkefninu í samvinnu við menningarráð landshlutanna og fleiri heimamenn á hverjum stað. Þjóðleikur á Vestfjörðum er með síðu á Facebook þar sem allir áhugamenn um leiklist á landsbyggðinni eru hvattir til að tengjast: www.facebook.com/ThjodleikurVestfjordum.

Allir hópar mega skrá sig til leiks og verið með í Þjóðleik; áhugaleikhópar, skólahópar eða vinahópar. Meðlimir hvers leikhóps þurfa þó að vera að minnsta kosti átta talsins og allir á aldrinum 13-20 ára (f. 1992-1999). Fyrir hópnum þarf  einnig að fara einn eða fleiri leiðbeinendur eða leikstjórar sem eru eldri en 20 ára. Leiðbeinendur hópanna fá ókeypis undirbúningsnámskeið í Þjóðleikhúsinu helgina 13.-14. október 2012.

Verkefnið fer þannig fram að þrjú glæný 45 mín. leikrit hafa verið skrifuð fyrir Þjóðleik af þjóðþekktum leikritaskáldum. Hver hópur vinnur sjálfstætt og velur sér eitt þessara verka og setur síðan upp leiksýningu í sinni heimabyggð. Stuðningur verður veittur til hópanna í formi ráðgjafar og námskeiðahalds yfir veturinn.

Vorið 2013 verða haldnar stórar uppskeru- og leiklistarhátíðir í hverjum landshluta þar sem allir hóparnir koma saman með leiksýningar sínar og er stefnan að hátíðin á Vestfjörðum verði haldin 4.-5. maí 2013.

Skráningarfrestur er til 1. október 2012 og má finna skráningareyðublað og nánari upplýsingar fyrir leikhópa á vef Menningarráðs Vestfjarða: www.vestfirskmenning.is.

Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða, verður verkefnastjóri Þjóðleiks á Vestfjörðum í vetur, en sérstök stjórn mun starfa fyrir verkefnið. Verið er að setja hana saman. Netfang Jóns er menning@vestfirdir.is – s. 891-7372.