22/07/2024

Saltkjöt og baunir í Skelinni

Í tilefni af sprengidegi mun Þjóðfræðistofa bjóða upp á Sprengispjall í Skelinni á Hólmavík, en þar verða saltakjöt og baunir á boðstólnum frá kl. 12-14. Skelin sem er til húsa að Hafnarbraut 7 á Hólmavík er verkefni á vegum Þjóðfræðistofu sem felst í því að leiða saman gestkomandi lista- og fræðimenn og Strandamenn á óformlegum vettvangi. Strandabyggð hefur staðið dyggilega við bakið á Skelinni í vetur og ber að þakka fyrir þá fjölbreyttu menningardagskrá sem þar fer fram.

Á Sprengispjallinu verður boðið upp á saltkjöt og baunir á vægu verði sem þó mun hafa hækkað lítið eitt síðan það var selt á tvær krónur hér í denn.  Þá verður lítið eitt spjallað um sprengidagshefðir og aðra siði tengda föstuinngangi og lönguföstu.

Frekari upplýsingar í síma 866-1940 og vefsíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is.