04/10/2024

Rottur krufnar á Hólmavík

Óvenjulegt verkefni beið nemendanna í 10. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík þegar þau mættu þar til vinnu í morgun. Kristján Sigurðsson líffræðikennari mætti í kennslustundina með þrjár rottur og verkefni nemendanna var að kryfja þær og kanna þar með innviði spendýra. Þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is mætti í kennslustofuna voru nemendurnir afar uppteknir við rannsóknir sínar og gáfu sér vart tíma til að líta upp og áhuginn fyrir verkefninu var mikill. Að sögn Kristjáns er verkefnið þáttur í að skilja uppbyggingu spendýra almennt, en rotturnar koma  frá rannsóknarstöðinni á Keldum og eru ræktaðar þar. Tilraunastofurotturnar eru lausar við alla smitsjúkdóma sem hrjá gjarnan hinar venjulegu rottur.

Rottur er ekki að finna á Ströndum en fyrir nokkrum tugum ára kom rotta til Hólmavíkur með skipi og upphófst mikill eltingarleikur eftir henni en hún náðist að lokum. Um það var saminn heilmikill bragur sem hófst með eftirfarandi orðum. Gaman væri að fá botninn í braginn, en sá er þetta skrifar man einungis eftir fyrstu þremur hendingunum.

Þar kom ein kyndug rotta
Kaupfélag að totta.

Þessum fjanda þurfti strax að ná