12/12/2024

Reykhólar og Kulusuk vinabæir

Á heimasíðu Reykhólahrepps – www.reykholar.is – er frá því sagt að dagana 23.-25. maí muni tveir fulltrúar Reykhólahrepps, Einar Örn Thorlacius sveitarstjóri og Áslaug B. Guttormsdóttir skólastjóri, heimsækja Kulusuk á Austur-Grænlandi. Ákveðið hefur verið að koma á fót vinabæjarsambandi á milli þessara tveggja staða. Í Reykhólahreppi búa 260 manns en Kulusuk er með 350 íbúa.
 

Áslaug og Einar munu dvelja í Kulusuk frá mánudegi til miðvikudags, en strax á fimmtudaginn (26. maí) kemur hópur frá grunnskólanum í Kulusuk til Reykhóla. Er þar um að ræða 10 börn á aldrinum 14-15 ára ásamt kennara sínum Henrik Lyberth sem jafnframt er fararstjóri. Munu þau verða með myndasýningu frá sínum heimaslóðum auk þess sem tveir úr hópnum verða með trommudans að grænlenskum sið. Hefst dagskráin kl. 20:00 í matsal Reykhólaskóla fimmtudaginn 26. maí og eru allir velkomnir.
 
Hugmyndin að þessum tengslum vaknaði hjá Benedikte Thorsteinsson sem er grænlensk kona búsett á Íslandi. Hún kom til Reykhóla í fyrra í boði Reykhóladeildar Lions og kynnti Grænland og Grænlendinga fyrir íbúum hreppsins. Er vonast til að þetta verði upphafið að auknum samskiptum og jafnvel gagnkvæmum heimsóknum íbúanna á þessum tveimur stöðum.

Leikvöllur við skólann á Reykhólum – ljósm. Jón Jónsson