11/09/2024

Hnúfubakur fær nýtt hlutverk

Stórt og mikið áningarborð hefur litið dagsins ljós í galdragarðinum en það er smíðað úr rekaviði og hvalbeinum. Hvalbein þessi eiga sér nokkuð merka sögu en þau eru kjálkabein úr hnúfubaki sem var skotinn af hvalveiðimönnum frá Hólmavík, líklega árið 1971. Þetta var risahvalur eins og stærð kjálkans segir til um, en þessi tegund hvala geta verið yfir 20 metrar á lengd og upp undir 50 tonn að þyngd. Hnúfubakurinn hefur lengstu bægsli sem þekkjast í náttúrunni en þau geta orðið 6 metrar að lengd. Þegar komið var með hnúfubakinn að landi, neðan við Furuvelli á Hólmavík, þá áttuðu menn sig á því að um var að ræða alfriðaða hvalategund og því þótti vissara að losa sig við hann sem fyrst, svo sem minnst bæri á.


HnúfubakurHvalurinn var því dreginn aftur djúpt út á fjörð þar sem gerð var tilraun til að sökkva hræinu, en nokkrum dögum síðar þá urðu menn varir við stóra vatnsgusu upp úr sjónum úti á miðjum firði, þar sem hvalurinn sprakk í loft upp vegna gasmyndunar. Hræið rak síðan að landi í Tungugrafarvogum þar sem það lá í langan tíma og úldnaði með tilheyrandi pestarilmi. Hafið sá svo um að taka skepnuna til sín aftur með tíð og tíma og menn hirtu eitt og eitt bein úr hræinu eftir því sem þau komu í ljós.

Kjálkarnir, sem eru nú undirstaða áningarborðsins við galdrasýninguna, lágu hálfgrafnir í jörðu utan við gömlu beinamjölsverksmiðjuna á Hólmavík þar til síðasta sumar að sýningin fékk að hirða þau og taka til handargagns.

Til stendur að skrá sögu þessarar einstöku hvalveiðiferðar sem hefur farið hljótt um undanfarna rúma þrjá áratugi þar sem málið telst líklega vera fyrnt. Ef einhver býr yfir frásögn af þessum atburði, tilburðum við veiðarnar eða þegar ferlíkið var dregið á land, svo ekki sé talað um ljósmyndir, þá eru það allt vel þegið. Netfang Galdrasýningar á Ströndum er galdrasyning@holmavik.is.

Þess má geta að hnúfubakur er talinn vera mesti söngvari allra hvala og var alfriðaður árið 1955. Latínuheitið á hnúfubak er Megaptera Movaeangliae.

.
Áningarborðið í garði Galdrasýningar á Ströndum á Hólmavík er hannað og smíðað af Sigurði Atlasyni.