12/09/2024

Ferðablaðið Vestfirðir 2005

Út er komið ferðablaðið Vestfirðir 2005 sem er gefið út af H-prenti á Ísafirði. Blaðið er óvenju efnismikið þetta árið og full ástæða til að óska aðstandendum hjartanlega til hamingju með glæsilegt og fróðlegt blað. Í frétt á www.bb.is í dag kemur fram að blaðinu verður líkt og fyrr, dreift á yfir 300 staði á landinu þar sem ferðafólk á leið um. Upplag blaðsins hefur verið aukið mikið, auk þess sem blaðsíðum hefur verið fjölgað úr 40 í 64. Í blaðinu má finna ýmiskonar fróðleik um Vestfirði og Strandir sem sérstaklega er gagnlegur ferðafólki.


Tilgangur blaðsins er tvíþættur: Annars vegar að stuðla að því að ferðafólk leggi leið sína til Vestfjarða og hins vegar að vera til gagns og fróðleiks fyrir þá sem ferðast um Vestfirði. Hluti blaðsins er á ensku og þýsku sem er nýmæli. Hægt verður að nálgast blaðið hjá útgefendum í H-prenti sem og hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf., sem mun sjá um hluta af dreifingu þess.

Hægt er að nálgast blaðið á pdf-formi á ferðasíðu www.bb.is sem og undir tenglinum hér að neðan:

Ferðablaðið Vestfirðir 2005