22/12/2024

Rafmagnshækkanir ræddar

Er áhugi hjá ráðamönnum að ráða bót á vandanum?Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mun n.k. fimmtudag flytja skýrslu um rafmagnshækkanirnar sem hafa dunið yfir Vestfirðinga, en þá fara fram umræður um málið á alþingi. Rafmagnshækkanirnar sem komu eins og þruma úr heiðskýru lofti á dögunum verða ræddar í þingsölum á fimmtudaginn og þá kemur í ljós hvort áhugi er fyrir því að taka þær aftur eða að deyfa þær verulega.

Margir íbúar á Ströndum eru uggandi um að niðurstaðan verði sú að  hækkanirnar verði ekki teknar aftur, heldur verði slegið ryki í augu kjósenda og einhver sýndarlækkun muni eiga sér stað.

Eins og fram hefur komið í fréttum mun raforkuverð hækka nokkuð á Vestfjörðum í kjölfar gildistöku nýrra raforkulaga. Hækkunin nemur ríflega um 40% í dreifbýli og þéttbýlisstöðum undir 200 íbúum þar sem hús eru hituð með rafmagni, og 12% í stærri kauptúnum. Það lætur nærri að helmingur heimila á Ströndum falli undir 40% hækkunina og þurfi því að taka á sig marga tugi þúsunda króna hækkun á ári við kyndingu íbúðarhúsnæðis, ef ekkert verður að gert.

Tengdar fréttir:
Enn um raforkuverð
Ótrúleg hækkun á rafmagni