24/04/2024

Hamingjugöngur og hnallþórubakstur

Fréttatilkynning
Ein af þeim hugmyndum sem upp hafa komið á íbúafundum fyrir Hamingjudaga á Hólmavík er að hafa Hamingjugöngur úr hverju hverfi fyrir sig. Ákveðið hefur verið að hvert hverfi skipuleggi sína göngu og lagt er til að rauðir leggi upp frá leikvellinum sem þar er, gulir leggi upp frá planinu við kirkjuna og komi gangandi niður tröppurnar þar, bláir hittist við kvenfélagshúsið og gangi Kópnesbraut og Hafnarbraut og appelsínugulir mæti við Grunnskólann og gangi niður svokallaða bankabrekku.

Lagt er til að menn mæti kl 20:30 til að gera stilla upp göngunni. Þá eru íbúar hvattir til að fá tónskáld hverfisins til að semja lag og/ eða texta til syngja í göngunni og klæðast eða festa á hvern og einn eitthvað í sínum einkennislit. Kvöldagskráin Hólmvískir hamingjutónar, ásamt hnallþóruhlaðborði, hefst á hátíðarsvæði kl 21:00. Því er hæfilegt að göngurnar verði komnar á svæðið um tíu mínútum áður en að dagskrá hefst þannig að tími gefist til að Gert er ráð fyrir að sú dagskrá fari fram í Fiskmarkaðnum en ef veður verður gott kann að vera að hún verði frekar í Klifstúni.

Hnallþórurnar

Þessa dagana er verið að ljúka við að ganga í hús og biðja um kökur fyrir kökuhlaðborð á Hamingjudögum. Það er von okkar að húsmæður og -feður bregðist okkur ekki frekar en fyrri daginn við að útbúa heimsins flottasta hnallþóruhlaðborð. Endilega hafið samband ef ekki hefur nást að koma til ykkar en þið hafið áhuga á að leggja til kökur. Við minnum á að veitt eru verðlaun fyrir hamingjusömustu, flottustu og girnilegustu hnallþóruna.

Best er að koma kökunum til skila í nýja fiskmarkaðinn milli kl 19:30 og 20:00 laugardagskvöldið 3. júlí en hlaðborðið hefst kl 21:00. Þeir sem ekki komast á þessum tíma geta sett sig í samband við framkvæmdastjóra eða skrifstofu Strandabyggðar. Nú reynir á hvort við getum mettað mörg hundruð manns á kökum einum saman!