10/12/2024

Víðsýnt af Bæjarfellinu

Grímsey og Bær, séð af BæjarfelliMjög víðsýnt er af Bæjarfellinu fyrir ofan Drangsnes, eins og þeir vita sem þangað hafa lagt leið sína. Vinsælt er að ganga á Bæjarfellið eða fara þangað á öðrum faratækjum en tveimur jafnfljótum. Jón Hörður Elíasson á Drangsnesi notaði góða veðrið sem var á Ströndum síðasta sunnudag til að taka fram vélsleðann og skreppa á Bæjarfellið. Myndavélin var að sjálfsögðu líka með í för.

Hægur leikur er að fara ef nægur snjór er á jörðu, á snjósleða eða góðum jeppa upp á Bæjarfellið og njóta útsýnisins. Á fjallinu er varða sem margir miða við og Jón Hörður var einmitt staddur við vörðuna þegar hann tók þessar myndir sem hér fylgja með.

Það er íhugunarefni á þessum tímum góðra og batnandi fjarskipta að Bæjarfellið er mjög góður staður til að staðsetja endurvarpa, hvort heldur er fyrir síma eða önnur fjarskipti. Það er öruggt að gsm-símasamband væri víða mun betra ef sendir væri á Bæjarfelli.

Á þessari mynd sést útsýnið yfir Steingrímsfjörðinn mjög vel. Drangsnes er í forgrunni myndarinnar, við sjóinn.

Horft til Hólmavíkur. – ljósm. Jón Hörður Elíasson