Talsverðrar óánægju hefur orðið vart meðal margra íbúa Hólmavíkur með að skít hafi verið dreift á tjaldvæðið á Hólmavík síðustu daga, en megna skítafýlu leggur þar um kring. Þykku lagi af blautum skít hefur verið dreift yfir tjaldsvæðið en margir hafa sett sig í samband við strandir.saudfjarsetur.is og furðað sig á því að þessi árstími hafi verið valin til skítadreifingarinnar. Ekki er nema vika í hvítasunnu en von er á gestum á tjaldsvæðið yfir hvítasunnuhelgina, en þá helgi fara ávallt fram fermingar á Hólmavík. Slökkvibíll frá Slökkviliði Hólmavíkur var mættur á tjaldsvæðið um hádegisbil til að reyna að skola sem mestu af skítnum í burtu.
Mönnum er enn í fersku minni ástand sem skapaðist á Ísafirði fyrir um það bil tveimur árum þegar sama atvik átti sér stað þar, en margir tjaldbúar þurftu þá að leita annað til að hæla niður næturstaðinn.
Slökkvibíllinn að störfum við glæsilegt tjaldsvæðið á Hólmavík
Ljósmynd: Ásdís Jónsdóttir