29/05/2024

Ný þjónusta á strandir.saudfjarsetur.is

Nýr spjallflokkur hefur verið tekinn í gagnið á Spjalltorgi strandir.saudfjarsetur.is og er hugsaður sem hjálpartæki fyrir þá sem hyggjast taka á sig ferðalag á Strandir og ber heitið Ferðaþjónusta á Ströndum. Undir þeim lið geta gestir strandir.saudfjarsetur.is leitað svara við spurningum sem brenna á þeim og varða ferðaþjónustu á Ströndum. Hvar eru gistiheimili? Á hvaða svæðum? Hvaða afþreying er í boði? Spurningar um gönguleiðir, bátsferðir, hjólaleigur, hátíðarhöld, fjarlægðir milli staða og opnunartíma hvers konar og aðrar spurningar sem koma upp hjá kunnugum og minna kunnugum.


Kveikjan að þessum lið á Spjalltorginu voru spurningar frá einum gesta strandir.saudfjarsetur.is sem varðaði ferðaþjónustu á Drangsnesi en einn íbúi þaðan svaraði spurningunum skjótt og vel. Þarna getur fólk fengið svör við nánast hverju sem er og varðar ferðaþjónustu en starfsfólk Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík mun einnig líta daglega við á spjalltorgið og leitast við að svara spurningum um ferðaþjónustu á Ströndum fljótt og vel.

Til að komast inn á spurningar og svör um ferðaþjónustu á Ströndum er smellt á hnappinn Spjalltorgið neðst í efri tenglaröðinni hér til vinstri hliðar og þar er svo smellt á Ferðaþjónusta á Ströndum.