Snjáfjallasetur sem hefur höfuðstöðvar fyrir utan Kaldalón við Djúp hefur opnað nýjan vef á slóðinni www.snjafjallasetur.net. Vefurinn hefur að geyma upplýsingar og myndir sem snerta byggðasögu í einu afskekktasta héraði landsins. Snjáfjallasetur hefur haldið úti blómlegu sýningahaldi síðastliðin sumur í Dalbæ á Snæfjallaströnd og eins var gefið út ritið Krafturinn í ánni á síðastliðnu ári.
Í sumar var haldið málþing um Spánverjavígin 1615 í Dalbæ á vegum Snjáfjallaseturs í samstarfi við Vestfirði á miðöldum, Strandagaldur, Náttúrustofu Vestfjarða og Sögufélag Ísfirðinga. Upplýsingar um málþingið og útdrættir úr erindum eru á vefnum, en ráðgert er að erindin komi út á bók fyrir áramót á vegum Sögufélags Ísfirðinga. Sögumiðlunin ehf sem Ólafur J. Engilbertsson stýrir sá um hönnun sýninga Snjáfjallaseturs sem eru á vefnum og jafnframt um útlit vefsins, en Benóný Ægisson sá um útfærslu.