13/09/2024

Gúmmíendur gefa mikilvægar vísbendingar um reka

Fyrir rúmum 14 árum, í janúar 1992, lenti vöruflutningaskip á leið frá Kína til Bandaríkjanna í miklum stormi í N-Kyrrahafi og missti útbyrðis nokkra vörugáma. Í einum gáminum voru hátt í 29.000 plastleikföng sem hafa síðan leikið lausum hala í Kyrrahafinu. Fjöldamörg leikfanganna fljóta í stórum 6.800 mílna hafsstraumshring á milli Kamsjatka í NA-Asíu og Alaska í N-Ameríku meðan önnur tóku stefnuna í gegnum Beringssund í N-Íshafið og þaðan í gegnum ís og frost framhjá og fyrir Grænland í N-Atlantshafið þar sem Golf-straumurinn tekur við þeim og sér um að flytja þau sunnar í álfuna. Þessi óvenjulegi reki hefur gefið vísindamönnum tækifæri á að fylgjast með hegðun hafstrauma og þá sérstaklega hve hratt efstu lög sjávarins fara um.

Plastleikföngin tóku að berast frá N-Íshafinu og suður með Grænlandi nokkrum árum síðar en það fréttist af fundi einhverja gúmmídýra á Íslandi árið 2000.

Rekabændur á Ströndum ættu að hafa augun hjá sér því boðið er upp á fundarlaun sem nemur u.þ.b. 7000 íslenskra króna á hvert gúmmídýr úr farminum sem finnst. Það er hægt að þekkja þau á því að hægra megin á hliðinni er vörumerki fyrirtækisins sem lét framleiða þau í Kína og þar á að standa upphleyptum stöfum; The first years. Mynd af samskonar gúmmíönd er að sjá á forsíðumynd þessarar fréttar en um er að ræða endur, froska, skjaldbökur og bjóra. Það er semsagt bara þessi eina tegund af plastleikföngum sem fólk  ætti sérstaklega að hafa auga með á rekafjörum. Gúmmídýrin gætu sagt okkur margt um ferðir rekaviðarins á Ströndum ef þau gætu talað, en talið er að hann hafi fylgt meira og minna sömu leið í árþúsund og þau hófu fyrir 14 árum. 

Á þessum tíma sem plastdýrin hafa velgst um í höfunum og nuddast í ísjökum í frosti og gaddi við norðurpólinn hafa þau augljóslega látið nokkuð á sjá. Einhver hafa kramist í sundur og leifar þeirra annaðhvort sokkin á hafsbotn eða dreifast um með djúpsjávarstraumum en önnur halda ferð sinni áfram um heiminn. Upphaflega voru endurnar í farminum gular, froskarnir grænir, skjaldbökurnar bláar og bjórarnir rauðir en nú eru þau væntanlega flest orðin litlaus eftir volkið. Þó virðist vera að skjaldbökurnar og froskarnir haldi frekar litnum en öndin og bjórinn. Ferðafélagarnir eru nú væntanlega í þúsundatali á sundi um N-Atlantshafið, allt suður að Nýfundnalandi en frést hefur af hluta þeirra á svipuðum slóðum og farþegaskipið Titanic fórst árið 1912. Vitað er um einn gúmmífrosk sem fannst á fjöru í Skotlandi árið 2003 á Lewis eyju.

Curtis Ebbesmeyer er sjávarfræðingur í Seattle í Bandaríkjunum og hefur fylgst náið með ferðum gúmmídýranna. Hann segir að ferð þeirra geti orðið mjög árangursrík og mikilvæg fyrir náttúruvernd og aukið á skilning fyrir henni í heiminum. Það sé vitað að um það bil 10 þúsund af 100 milljón vörugáma sem eru fluttir um heimshöfin árlega falli útbyrðis og týnast á höfunum. Hann vill vekja athygli á því að þegar vörugámur falli af skipi þá hverfi hann ekki og tapi þar með tilveru sinni, heldur sé hann áfram á einhverjum ákveðnum stað og innihald þeirra er í mörgum tilfella hættulegri efni en gúmmíendur og plastfroskar. Þeir muni opnast fyrr en síðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir dýralíf á sjó og landi. Það megi vera ljóst af ferð gúmmídýranna að heimshöfin tengjast öll saman og að áhrif mengunarslyss á hafi úti í einum heimshluta, komi fram fyrr en síðar í öðrum.

Því megi horfa á ferð gúmmídýranna sem einskonar pílagrímsferð mannkyni til heilla, ekki síst til að það geti áttað sig á gangi hafstrauma um mikilvæg og oft viðkvæm svæði sem erfitt sé að rannsaka.

Við úttekt fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is á gúmmídýrunum kom eitt og annað skemmtilegt í ljós. Til dæmis þá er það skráð í heimsmetabók Guinnes að talið er að stærsta gúmmíandasafn í heimi telji 1.437 misjafnar tegundir  plastanda og ætla má að fjöldi gerða gúmmíanda sé því talsvert meiri. Það er  einnig gaman að nefna að Elísabet Bretlandsdrottning á sérhannaða gúmmíönd sem hún geymir í sínu konunglega baðherbergi sem ber einnig uppblásna kórónu. Það var breskur iðnaðarmaður sem rak augun í hana þegar hann var að mála baðherbergi hennar hátignar og gaspraði að enskra manna sið í slúðurblaðið The Sun sem birti frétt um málið. Í framhaldi af því varð söluaukning á gúmmíöndum í Bretlandi um 80%.

Gúmmíendur hafa orðið mikið menningarfyrirbæri frá því þær litu fyrst dagsins ljós í upphafi gúmmíframleiðslu í heiminum seint á 19. öld þegar menn hófu að tappa latexi úr gúmmítrjám til iðnaðarframleiðslu. Til að mynda er á nokkrum stöðum í heiminum keppt í gúmmíanda-rafting, eða sundkeppni, en þá koma fjöldi keppenda saman hver með sína gúmmíönd og síðan er þeim sleppt lausum í einhverja ána og sá vinnur til verðlauna sem á þá gúmmíönd sem rekur fyrst í mark á ákveðnum stað neðar í ánni. Þar er kannski komin hugmynd að árlegri keppni á Ströndum, t.d. í Bjarnarfjarðará, að fleyta niður gúmmíöndum í öllum regnbogans litum og hvetja þær áfram með hrópum og köllum daglangt.

Nokkrar gerðir af gúmmíöndum er að sjá á myndinni sem fylgir hér að neðan. Lengst til vinstri er venjuleg gul gúmmíönd svo lítil og saklaus, þá djöflagúmmíönd í kristilegum lit og þar við hlið gúmmíönd í hreindýrastíl sérstaklega ætluð til jólaskreytinga. Framan við hana er sólstrandagúmmíönd með bláan gogg. Svarta gúmmíöndin er svokölluð svört dauð gúmmíönd en hún flýtur eingöngu á hvolfi.