26/04/2024

Húmorsþing á Hólmavík

Það verður væntanlega mikið hlegið á Hólmavík um helgina, þegar árlegt Húmorsþing verður haldið þar laugardaginn 17. mars 2012. Fyrir því standa Þjóðfræðistofa og Þjóðfræði við Háskóla Íslands, í samstarfi við Eddu-öndvegissetur. Húmorsþingið er bæði vetrarhátíð og málþing um húmor sem fræðilegt viðfangsefni. Það er nú haldið í fjórða sinn á Hólmavík á Ströndum. Á málþinginu munu fræðimenn stíga á stokk og varpa ljósi á nýjustu rannsóknir og miðlun á húmor. Í fyrirlestrum og umræðuhópum verður rætt um hinar ýmsu birtingarmyndir húmors og margvíslega iðkun þess í daglegu lífi og fjölmiðlum. Allir eru hjartanlega velkomnir á þingið og skemmtanir því tengdar.

Á meðal þátttakenda verða Þorsteinn Guðmundsson, Ugla Egilsdóttir, Ari Eldjárn, Örn Úlfar Sævarsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Íris Ellenberger, Ármann Jakobsson, Sóley Guðmundsdóttir,  Kristinn Schram, Kristín Einarsdóttir og nemendur í þjóðfræði.

Fjöldi fróðlegra erinda og ærslafullt uppistand verður meðal annars á boðstólnum auk kankvísrar barþrautar (pub quiz) undir stjórn feðginina Þorbjargar og Matthíasar Lýðssonar. Þá verður kvikmyndasýning á heimildamyndinni Uppistandsstelpur. Auk þess verður í fjórða sinn efnt til grínkeppninnar sívinsælu Orðið er laust.

Matur er í boði á Café Riis bæði í hádeginu og um kvöldið.

Dagskrá

13:30 (í Pakkhúsinu – Café Riis)
Málstofa um húmor: form og iðkun

Kristinn Schram: Fylgt úr hlaði
Bryndís Björgvinsdóttir: Af hverju eru konur með fætur?" Birtingarmynd kvenna í bröndurum
Sóley Guðmundsdóttir: Að drepast eða drepast úr hlátri
Ari Eldjárn: Af uppistandi
Þorsteinn Guðmundsson: Litli landsdómsbrandarinn

15.30 
Málstofa um húmor í fjölmiðlum og fræðum

Kristín Einarsdóttir: Umfjöllun um húmor í fjölmiðlum og fræðum
Örn Úlfar Sævarsson: Húmor í auglýsingum
Ármann Jakobsson: Allur raunveruleiki er framleiddur: Um Sigtið með Frímanni Gunnarssyni

Umræður

17.00
Sýning á heimildamyndinni Uppistandsstelpur eftir Áslaugu Einarsdóttur fylgt úr hlaði af Írisi Ellenberger

Kl. 20.00
Barþraut (pub quiz) undir stjórn feðginina Þorbjargar og Matthíasar Lýðssonar

Kl. 21.30 
Uppistand og Orðið er laust
Fram koma meðal annars Þorsteinn Guðmundsson og Ugla Egilsdóttir

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, og/eða beinið fyrirspurnum, í netfangið dir@icef.is. Rúta fer á vegum Húmorsþingsins frá Reykjavík og til baka aftur á sunnudeginum. Skráning í rútuna fer fram í gegnum síma 698-3105 og netfang kriste@hi.is.