06/05/2024

Fyrirlestur um málefni fatlaðra

Eva Þórdís Ebenesersdóttir er nýr gestur í Skelinni – fræði- og listamannaíbúð Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Miðvikudaginn 21. mars kl. 13:00 verður hún með fræðslufyrirlestur um málefni fatlaðra. Í kynningu segir: "Fötlunargeirinn og fötlunarpólitík er alls ekki einfalt fyrirbæri enda hópurinn sem um ræðir margbreytilegur líkt og samfélagið allt. Við þetta tækifæri verður farið, eins og hægt er, ofan í saumana á orða og hugtakanotkun í tengslum við málefni fatlaðs fólks. Hugtakanotkunin er oftar en ekki byggð á hugmyndafræði af einhverju tagi og verður því um leið og hugtökin flæða fram gerð nokkur grein fyrir ólíkri hugmyndafræði innan fötlunarfræða og innan baráttuhreyfinga fatlaðs fólks."

"Eitt leiðir af öðru og hugmyndafræðin kallar fram fyrirbæri á borð við samning Sameinuðu þjóðana um réttindi fatlaðs fólks og NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, sem eru tvö stór og mikilvæg atriði í málefnum fatlaðs fólks í dag."