27/04/2024

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður 14. apríl

580-hestar

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður haldinn á Hótel Bjarkalundi í Reykhólasveit laugardaginn 14. apríl næstkomandi kl. 09:00. Að venju verður mæting um kvöldmatarleytið á föstudagskvöldið og lítil dagskrá um ferðamál um kvöldið. Núverandi formaður, Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs, mun ekki gefa áfram kost á sér til stjórnarsetu og því er ljóst að nýr formaður Ferðamálasamtakanna mun taka við á aðalfundinum. Kosið verður um fjóra stjórnarmenn til viðbótar. Nánari dagskrárupplýsingar verða sendar síðar, en ferðaþjónum er bent á að taka helgina frá.

Í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða sitja sex einstaklingar auk formanns, sem kjósa skal sérstaklega á hverjum aðalfundi til árs í senn. Leitast skal við að kjósa fulltrúa sem flestra svæða í stjórn.