11/09/2024

Snúlla og Steina með páskatipp

Það er óhætt að segja að tipparar vikunnar séu ekki beinlínis þeir reyndustu í bransanum. Ásdís Jónsdóttir heldur áfram keppni eftir sigur síðustu helgar, en keppinautur hennar er engin önnur en Steinunn Þorsteinsdóttir í Miðdalsgröf. Hvorug þessara ágætu kvenna hefur mikið vit á knattspyrnu en ná engu að síður að kreista fram býsna fínar spár. Ásdís notar sérhannaða galdrasteina við verkið, en Steina tippar aðallega á sigur þeirra liða sem hún þekkir nöfnin á. Hún notar einnig ýmis aðferðir, t.d. sannfærir Karl Bretaprins hana um sigur Charlton, hún veðjar á tap Middlesbro vegna "tengsla" liðsins við reykingar og telur að Plymouth vinni vegna þess hversu líkt nafnið er Playmo-dótinu. Spár og bráðfyndnar umsagnir má sjá hér fyrir neðan:

Ásdís: Jæja, þá er komið að því einu sinni enn og nú skal höfð einföld aðferð. Þrír galdrasteinar lagðir í krús og á þeim stendur 1 x 2 og skulu þeir tíndir upp úr einn og einn og lesið yfir þeim smá særingar og segja þeir hvernig tippa skal. Einn galli er á þessu. Það er ekki sama hvernig stendur á tungli en það mun koma í ljós hversu hagstætt það er. 

 +++

1. Everton – Tottenham

Ásdís: Tveir segja steinarnir. Ég er ekki sammála en þeir ráða. Tákn: 2.

Steina: Þar sem ég þekki mjög fá nöfn í enska boltanum þá ætlaði ég að giska á sigur hjá þeim sem ég þekki en auðvitað þekki ég bæði þessi nöfn þannig að kerfið fellur á fyrsta leik. En þá tek ég fram næsta kerfi og það er heimasigur. Þannig að þessi fer 1. Tákn: 1.

+++

2. Arsenal – WBA

Ásdís: West B. Albion. Kann ekki að skrifa Béið. Tákn: 1.

Steina: Djöf… ég þekki þessi nöfn líka. Kerfi B kemur þá aftur. Tákn: 1.

+++

3. West Ham – Man.City

Ásdís: Ex skal það vera. Tákn: X.

Steina: Í "gamla" daga var bara talað um Liverpool og Man. United (er nokkur munur á United og City nei nei) svo við skjótum á tvo hér. Tákn: 2.

+++

4. Newcastle – Wigan 

Ásdís: Það er ekkert púður í þessu grjóti. Tákn: 1.

Steina: Vei nú virkar kerfi A. Newcastle vinnur því að ég hef heyrt það áður. Tákn: 1.

+++

5. Fulham – Charlton

Ásdís: Þarna spilar Heiðar Helguson móti Hermanni Hreiðarssyni, mér finnst þeir ekkert flottir. Látum þá gera jafntefli. Tákn: X.

Steina: Já, hef ég heyrt þetta áður? Held ekki. Hugsa að ég veðji á Charlton (Karl prins kom upp í huga mér og þar sem hann á nú brúðkaupsafmæli um þessar mundir þá held ég að þetta sé dulbúin vísbending). Tákn: 2.

+++

6. Portsmouth – Middlesboro

Ásdís: Skítalið. Tákn: 1.

Steina: Middlesbro vinnur ekki því að ég hélt í "gamla" daga að Middlesbro væri sígarettutegund. Reykingar og íþróttir eiga ekki saman svo að það verður heimasigur. Tákn: 1.

+++

7. Leicester – Preston

Ásdís: Galdragrjótið veðjar á heiðingjana í Leicester. Ég klikkaði líka á prestunum með Guðsa í markinu. Tákn: 1.

Steina: Preston er svo prestalegt og þar sem ég er heiðingi þá tapa prellarnir. Tákn: 1.

+++

8. Leeds – Reading

Ásdís: Reading er með steinsmugu. Tákn: 1.

Steina: Já, Leeds hef ég heyrt áður svo þeir vinna. Tákn: 1.

+++

9. Sheff. Wed. – Norwich

Ásdís: Sheffield Wednesday vinnur bara á miðvikudögum. Tákn: 2.

Steina: Þarna þekki ég bæði en það þýðir ekkert að slíta kerfinu strax út svo að ég tippa á útisigur. Tákn: 2.

+++

10. Ipswich – Brighton

Ásdís: Issviss eitt. Ekki líst mér á þetta. Tákn: 1.

Steina: Þarna þekki ég hvorugt svo að ég fer í kerfið góða. Heimasigur! Tákn: 1.

+++

11. Stoke  – Southampton 

Ásdís: Íslendingaliðið Stók er ekkert djók. Tákn: 1.

Steina: Vei – lið sem ég hef heyrt um (veljum íslenskt og allt það). Sigur fyrir Stoke. Tákn: 1.

+++

12. QPR – Derby

Ásdís: Hrista og veiða upp stein með tölunni einn. Tákn: 1.

Steina: Mitt innra innsæi sér heimasigur hér og mikla gleði á kránum hvar sem þessi heimavöllur er nú. Tákn: 1.

+++

13. Millwall – Plymouth

Ásdís: Nú er að sjá hvort tunglstaðan hefur einhver áhrif í rétta átt. Tákn: X.

Steina: Plymouth minnir mig á Playmo og mér finnst þessi blessaður bolti frekar barnalegur svo að ég tippa á útisigur. Tákn: 2.

+++

Ásdís: Ég hef verið að skoða liðin á netinu. Merkilegt að nenna þessu sparki endalaust.

Steina:  Ég er nú frekar fúl yfir að geta ekki tippað á tap hjá Liverpool (bara í kvikindis skap) og sigur hjá Chelsea því að ég þykist stundum halda með þeim, svo er Eiður svo mikið krútt. Annars var bara til Liverpool og Man. Utd. þegar ég var yngri og ég hélt með Liverpool því að ég gat ekki borið hitt fram (en síðan hefur enskukunnáttan lagast aðeins og viskan líka).En annars takk fyrir mig! P.S. var að fatta að það er hægt að gera X líka, svona er kunnáttan mikill en það verður bara ekkert jafntefli hjá mér.