13/09/2024

Myndir frá hrútaþuklinu

Heimsmeistaramót í hrútaþukli var haldið á vegum Sauðfjársetursins í Sævangi síðla ágústmánaðar, þriðja árið í röð. Mikil aðsókn var að deginum en vel á þriðja hundrað manns skrifuðu sig í gestabók. Mætti fólk víðs vegar að af landinu á þessa árvissu skemmtun sem aldrei hefur tekist betur. Það var Björn Þormóður Björnsson bóndi og kjötmatsmaður á Ytra-Hóli í Húnavatnssýslu sem fór með sigur af hólmi í flokki vanra eftir harða baráttu og mikið þukl.

Margvísleg verðlaun stóðu þeim til boða sem lentu í fyrstu sætunum, m.a. munir frá handverksfólki og ferðaþjónum, rækjur frá Hólmadrangi, gisting frá Ferðaþjónustu bænda og Heydal í Mjóafirði, 15 skammtar af hrútasæði frá Sæðingastöð Vesturlands og margt fleira.

Jón Viðar Jónmundsson stýrði dómnefndinni af alkunnri snilli, en hún metur fjóra hrúta með öllum nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan eiga keppendur að reyna sig við matið á hrútunum með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að númera hrútana frá einum og upp í fjóra og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja.

Strandamenn urðu að sjá á eftir aðalverðlaununum að þessu sinni, en áttu verðlaunahafa í báðum flokkum. Glæsilegur verðlaunagripur sem unnin var úr rekaviði og hvalbeini af handverksmanninum Valgeiri Benediktssyni í Árnesi var nú veittur í fyrsta skipti fyrir hrútameistaratignina, en hann var gefinn af Búnaðarsambandi Strandamanna til minningar um Brynjólf Sæmundsson búnaðarráðunaut á Ströndum.

Flokkur vanra hrútaþuklara:

1. sæti: Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Vindhælishreppi
2. sæti: Elvar Stefánsson í Bolungarvík
3. sæti: Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi á Ströndum, Gunnar Dalkvist á Bæ í Árneshreppi og Reynir Stefánsson í Hafnardal í Hólmavíkurhreppi.

Flokkur óvanra:

1. sæti: Rebekka Eiríksdóttir á Stað á Reykjanesi í Reykhólahreppi
2. sæti: Dagrún Magnúsdóttir á Laugalandi í Skjaldfannadal í Hólmavíkurhreppi
3. sæti: Victor Örn Victorsson, skólastjóri Grunnskólans á Hólmavík

Aðstandendur Sauðfjársetursins voru stóránægðir með uppákomuna. Hrútadómadagurinn var best sótti viðburðurinn á Sauðfjársetrinu í Sævangi sumarið 2005 og besti dagur frá upphafi í kaffistofu og á sögusýningunni.

saudfjarsetur/580-hrutadomar7.jpg

bottom

1

saudfjarsetur/580-hrutadomar2.jpg

bottom

1

Ljósm. Ásdís Jónsdóttir