22/11/2024

Músagildran á Hólmavík

Stjórn Leikfélags Hólmavíkur hefur tekið ákvörðun um hvaða leikverk verður sett upp nú í vor. Það er hið heimsfræga sakamálaleikrit Músagildran eftir hina velþekktu Agöthu Christie.

"Það hefur gengið vel að plata fólk til að taka þátt í uppsetningunni og góðar líkur eru á að búið sé að fullmanna í hlutverk," sagði Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri félagsins þegar ritari strandir.saudfjarsetur.is heyrði í henni nú í dag.

Hlutverkin í Músagildrunni samanstanda af átta hlutverkum; fimm eru ætluð karlkyns leikurum og þrjú kvenfólki. Víðidalsárbóndinn Skúli Gautason er fyrsti kostur sem leikstjóri, en eitthvað á stjórn Leikfélagsins þó eftir að púsla saman hvernig fyrirhugað æfingatímabil verður skipulagt, sökum óheyrilegra vinsælda á uppsetningu Leikfélags Akureyrar, Óliver. Þar leikur Skúli nokkuð stórt hlutverk og á erfitt með að komast frá sökum vinsælda verksins.

Þá hafa borist fregnir af því að endanleg ákvörðun um það hvort þeir Lárus Ýmir Óskarsson og Jón Karl Helgason muni gera heimildarmynd um Leikfélagið verði tekin þann tuttugasta og fjórða þessa mánaðar. strandir.saudfjarsetur.is munu að sjálfsögðu fylgjast vel með framvindu mála.

Vefsíða Leikfélags Hólmavíkur er www.holmavik.is/leikfelag.