14/06/2024

Mikil spenna á frumsýningu Jóladagatalsins í dag

Allir krakkarnir sem taka þátt í Jóladagatali Strandagaldurs, Brúðustrákurinn Tumi og fjallabörnin, stormuðu á frumsýningu eftir hádegi í dag. Daglegar sýningar hefjast svo næstkomandi föstudag hér á strandir.saudfjarsetur.is. Það var mikill glæsibragur yfir hófinu. Komið hafði verið fyrir rauðum dregli í galdragarðinum og upp á aðra hæð Galdrasafnsins á Galdraloftið. Þar gæddu börnin sér á poppi og djúsi meðan þau fylgdust spennt með framgangi Jóladagatalsins. Galdraloftið var fullt út úr dyrum eins og vera ber á frumsýningum, en margar mömmur og pabbar og ömmur og afar gáfu sér tíma til að fylgjast með glæsilegri frammistöðu barnanna. Meðfylgjandi myndband er frá hátíðarsamkomunni, en ljósmyndir munu birtast á strandir.saudfjarsetur.is á morgun.

DVD diskurinn er til sölu á jólamarkað Strandakúnstar á Galdrasafninu á morgun, en þar opið alla daga fram að jólum. Einnig er hægt að versla eintök í sölubúð Strandagaldurs á vefnum með því að smella hér.