12/12/2024

Frumsýning á Jóladagatali Strandagaldurs

Í dag mánudaginn 8. desember klukkan 13:00 verður frumsýningarhóf vegna Jóladagatals Strandagaldurs, Brúðustrákurinn Tumi og fjallabörnin haldið á Galdraloftinu. Allar stjörnur myndarinnar munu mæta en þrettán börn úr leikskólanum Lækjarbrekku leika stór hlutverk. Upptökur fóru fram í nóvember á leikskólanum þar sem leikmyndin var sett upp. Jólasveinaatriðin voru tekin upp í Kotbýli kuklarans. Að sögn Sigurðar Atlason, leikstjóra Jóladagatalsins, er mikil spenna í loftinu og hann segir stefna í mikla veislu á Galdraloftinu. Allir aðstandendur barnanna á leikskólanum, pabbar og mömmur og afar og ömmur eru velkomin í frumsýningarhófið þar sem jóladagatalið verður sýnt frá upphafi til enda. Formlegar sýningar hefjast síðan næstkomandi föstudag á galdrasyning.is og hér á strandir.saudfjarsetur.is.

Eins og fyrr segir þá koma þrettán börn fram í Jóladagatali Strandagaldurs auk þess sem brúðustrákurinn Tumi leikur stórt hlutverk og að sjálfsögðu jólasveinarnir þrettán. Börnin þrettán sem öll þreyta frumraun sína í kvikmyndagerð eru:

Júlíana Steinunn Sverrisdóttir, Díana Jórunn Pálsdóttir, Svanur Eðvald Halldórsson, Hilmar Tryggvi Kristjánsson, Helgi Sigurður Júlíusson, Signý Stefánsdóttir, Þorsteinn Jónsson, Arndís Una Karlsdóttir, Friðrik Heiðar Vignisson, Róbert Máni Newton, Hjálmar Orri Björnsson, Guðmundur Ragnar Snorrason og Brynhildur Sverrisdóttir. Auk þess koma fram í myndinni í hlutverki jólasveina Arnar S. Jónsson og Sigurður Atlason sem einnig ljáir brúðustráknum Tuma rödd sína en hann sá einnig um kvikmyndatöku og alla eftirvinnslu Jóladagatals Strandagaldurs, Brúðustrákurinn Tumi og fjallabörnin. Sigríður Óladóttir bjó til brúðuna.

Stefnt var að því að DVD diskurinn með jóladagatalinu kæmi út samdægurs en það tefst líklega um einn dag. Engu að síður er hægt að tryggja sér eintak í sölubúð Strandagaldurs á vefnum með því að smella hér.