28/03/2024

Málþing um minjar og menningu Stranda

Laugardaginn 18. ágúst verður haldið heilmikið málþing í Hveravík við Steingrímsfjörð á Ströndum og stendur frá 11:00-16:30. Málþingið hefur yfirskriftina Landnámsbær fundinn á Selströnd – málþing um minjar og menningu Stranda. Á bak við verkefnið er Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur í samstarfi við fjölda aðila á heimaslóðum, landsvísu og erlendis. Forsaga málsins er sú að fyrir nokkrum árum urðu íbúar í Bakkagerði á Selströnd varir við bein sem stóðu út úr sjávarbakka sem hafði brotnað niður vegna ágangs sjávar.

Haft var samband við Albínu Huld Pálsdóttur dýrabeinafornleifafræðing og sýndi sig að þarna var öskuhaugur þar sem fannst litríkt samansafn af beinum úr sjávardýrum, fuglum og fiskum í viðbót við svína- og geitarbein svo dæmi séu nefnd. Starfsmenn Minjastofnunar Íslands tóku síðan bein neðarlega úr haugnum til rannsóknar og sendu til aldursgreiningar. Sýndi sú greining fram á að mestar líkur eru á að beinin séu frá árabilinu 850–910.

Í dag hefur alþjóðlegt teymi fornleifafræðinga tekið málið í sínar hendur og er hópurinn við rannsókn á þessum mannvistarleifum í Sandvík á Ströndum nú í ágúst. Kannað verður umfang ruslahaugsins og reynt að finna útlínur bæjarins og annarra bygginga. Í tengslum við þetta er málþingið í Hveravík við Steingrímsfjörð haldið, þar sem niðurstöður rannsóknarinnar verða settar í samhengi við strandmenningu landa við Norður-Atlantshafið, bæði í austri og vestri.

Fundarstjóri á málþinginu í Hveravík verður Bergsveinn Birgisson og eru öll sem áhuga hafa hjartanlega velkomin. Flest erindin verða flutt á íslensku og fundarstjóri flytur samantekt á íslensku um þau erindi sem haldin verða á ensku.

Dagskrá málþingsins er svohljóðandi: 

11:00 Ávörp frá oddvita Kaldrananeshrepps og menningarfulltrúa Vestfjarða

11:15 Howell Roberts – Torf, grjót og landnám
11:35 Morten Ramstad – Veiðar og strandmenning (Hunting and fishing in coastal areas)*
12:00 Lísabet Guðmundsdóttir – Rekaviður og kúfskeljar
12:20 Ramona Harrison – Sögur af dýrabeinum – Siglunes á Siglufirði sem dæmi (Tales from animal bones – Siglunes in Siglufjörður as an example)*
12:40 Konrad Smiarowski – Veiðar, fiskveiðar og húsdýrahald á norræna Grænlandi (Hunting, Fishing and Farming in Norse Greenland)*

13:00 Hádegishlé. Súpa fyrir ræðumenn og gesti á hóflegu verði
13:30 Á söguslóðum með Magnúsi Rafnssyni í Strákatanga (stutt ganga): Hvalveiðistöð Baska og kuml frá landnámsöld

14:00 Gísli Pálsson – Hlunnindi og kvaðir / tengslanet
14:20 Bergsveinn Birgisson – Landnám Gríms Ingjaldssonar í Grímsey
14:40 Jón Jónsson – Að virkja hugvitið, sögur og sagnir
15:00 Elín Agla Briem – Að muna með því að gera
15:20 Adolf Friðriksson – Kuml á Vestfjörðum

15:40 Hlé, kaffiveitingar
16:00 Umræður og samantekt

Málþingið er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og er hluti af Menningararfsári Evrópu 2018. Helstu þátttakendur í verkefninu auk heimamanna eru Háskólinn í Bergen í Noregi og Fornleifastofnun Íslands.