30/10/2024

Leikfélag Hólmavíkur á súpufundi

300-supufundur3Leikfélag Hólmavíkur mun kynna starfsemi sína á vikulegum súpufundi um atvinnu- og menningarmál fimmtudaginn 7. maí. Leikfélag Hólmavíkur var stofnað 3. maí 1981. Áður hafði þó löngum verið leikið á Ströndum, undir merkjum ýmissa ólíkra félagasamtaka svo sem kvenfélagsins og Lionsklúbbsins. Það má halda því fram að leiklist hafi verið stunduð á Hólmavík frá ómunatíð. Frá stofnun félagsins fyrir 28 árum hafa verið settar upp nærri 40 sýningar auk fjölda annarra verkefna s.s.
skemmtanir á árshátíðum og hverskyns námskeið. Þau eru fá leikfélögin á landinu sem hafa sýnt jafn víða og Leikfélag Hólmavíkur.

Þetta verður fjórtándi súpufundurinn frá síðustu áramótum þar sem fjallað er um atvinnu- og menningarmál á Ströndum. Súpufundirnir eru að venju á Café Riis á Hólmavík og standa frá kl. 12:00 til 13:00.

Tilgangur með fundunum er að auka vitneskju heimamanna um fjölbreytt menningar- og atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að efla skilning á milli atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar og nýsköpun í atvinnulífi.

Stefnt er að því að opna atvinnu- og menningarmálasýningu í Félagsheimilinu á Hólmavík á vordögum sem verður uppi allt sumarið og mun undirstrika öflugt og fjörugt atvinnu- og mannlíf á Ströndum. Það eru allir hjartanlega velkomnir og hvattir til að mæta á þessa fróðlegu og skemmtilegu súpufundi á Hólmavík á fimmtudögum.