22/12/2024

Landsins forni fjandi?

Einmuna góð tíð hefur verið síðustu vikur, sannkallaður sumarauki um miðjan vetur. Nú þykja mörgum Strandamönnum hins vegar blikur á lofti og heyrst hefur margvíslega drauma íbúa við Steingrímsfjörð sem gefa til kynna norðanátt og snjókomu sem einkenni næstu daga. Hefur talan 17 oft komið þar við sögu og telja menn að hún tákni leiðindaveður eða rysjótta tíð í 17 daga. Eins hafa spádómar og draumar um hafís verið áberandi síðustu vikuna og búast þeir sem bæði eru svartsýnir og draumspakir við því að landsins forni fjandi fylli firði og víkur strax um næstu helgi.

Veðurspáin fyrir svæðið næsta sólarhring er hins vegar á þessa leið: Gengur í suðaustan 8-13 m/s með rigningu. Suðvestan 10-15 og þurrt að kalla síðdegis. Suðvestan 13-20 og dálítil rigning síðdegis á morgun, hvassast úti við sjóinn. Hiti 3 til 8 stig.

Veðurspá fram í tímann á www.vedur.is er eftirfarandi:

Á fimmtudag: Norðvestan og síðar norðan 8-15 m/s. Dálítil él norðantil, en léttir til sunnanlands. Kólnandi veður.

Á föstudag og laugardag: Norðlæg átt 10-15 m/s austantil, en hægari vestantil. Dálítil él, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Frost 2 til 9 stig.

Á sunnudag og mánudag: Norðaustlæg átt og él, einkum norðan- og austantil og harðnandi frost.