14/09/2024

Idol kvöld í undirbúningi

Mikill fögnuður á síðasta Idol kvöldi á HólmavíkIdol kvöld Strandamanna er í undirbúningi en úrslitakeppnin er næsta föstudagskvöld, en Heiða Ólafs frá Hólmavík hefur svo sannarlega glatt sitt fólk undanfarnar vikur með fádæma góðri frammistöðu. Sigurður Marinó Þorvaldsson einn skipuleggjanda Idol kvölda á Hólmavík hefur undanfarið staðið í viðræðum við Stöð 2 um að sýna beint frá Hólmavík en það kemur í ljós á morgun hvort það sé tæknilega mögulegt að ráðast í það. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum sem sér um dreifikerfið, getur það verið nokkrum tæknilegum örðugleikum bundið, en menn þar á bæ vilja þó meina að allt sé hægt ef vilji er fyrir hendi.

Stöðvar 2 menn eru því að íhuga stöðuna en samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Marinó er mjög líklegt að Stöð 2 komi á föstudaginn og myndi Idol á Hólmavík til að sýna seinna, þó ekki takist að koma á beinni útsendingu. Það kemur í ljós á morgun hvort um beina útsendingu frá Hólmavík verði að ræða.

Mikil stemmning er fyrir úrslitakvöldinu á Ströndum sem sýnir sig meðal annars í því að yfir hundrað "Áfram Heiða bolir" til að klæðast á úrslitakvöldinu hafa verið seldir í forsölu. Hægt verður að nálgast bolina á föstudaginn á Galdrasýningu á Ströndum, en sýningin verður opin frá kl. 10:00 um morguninn. Það stefnir því í litskrúðugt mannlíf á Hólmavík þann 11. mars.

.

Svona lítur "Áfram Heiða bolurinn" út.