12/09/2024

Kosningar á morgun

Á morgun verður kosið í sveitarstjórnir um land allt og líka á Ströndum. Spennan er víða í hámarki vegna þessa og hér á vefnum hefur verið inni skoðanakönnun í nokkra daga þar sem spurt var um stuðning við listana í þeim tveimur sveitarfélögum þar sem listakosning er á Ströndum. Í Bæjarhreppi var stuðningur áberandi meiri við H-listann samkvæmt þessari könnun, en þátttakendur voru þó helst til fáir. Í sameinuðum Hólmavíkur- og Broddaneshreppum var þátttaka mun meiri og ef eitthvað er að marka könnunina verður mjótt á munum milli listanna. Bæði framboð fengu rúmlega 80 atkvæði á vefnum.

Minnt er á að vefkannanir eru fyrst og fremst til gamans gerðar og ber að líta á þær sem slíkar. Hins vegar hvetur fréttavefurinn alla Strandamenn eindregið til að taka þátt í kosningunum og vera með í velja það fólk sem mun stýra sveitarfélögum á Ströndum næsta kjörtímabil.