10/09/2024

Vorskóli og útskriftarveisla

Þau börn í Hólmavíkurhreppi sem verða sex ára á þessu ári og hefja nám í Grunnskólanum á Hólmavík í haust hafa tekið forskot á sæluna í þessari viku. Nú stendur yfir árlegur vorskóli, en þar mæta börnin í Grunnskólann í eina viku eftir stundaskrá. Þar eru allir hlutir eru kynntir fyrir þeim og þau stunda námið undir stjórn Ingibjargar Emilsdóttur. Um leið kynna þessir tilvonandi nemendur sér allan aðbúnað í Grunnskólanum, húsakost, námsefnið og afþreyingarmöguleika. Áhersla er lögð á að blanda saman skemmtun og fræðslu.

Í dag er líka merkisdagur fyrir þessi sömu börn sem útskrifast úr Leikskólanum Lækjarbrekku nú í vor eða sumar. Ætlunin er að halda heilmikla útskriftargleði þar sem byrjað er á sundferð og síðan fer allt liðið í Kaupfélagið og nær sér í efnivið fyrir kvöldmatinn. Þar verður ís og pizza og grjónagrautur á matseðlinum í sameiginlegri máltíð á Lækjarbrekku og síðan ætla krakkarnir að gista í Leikskólanum í nótt með nokkrum vel völdum fóstrum.

Í vorskólanum – Ljósm. Ester Sigfúsdóttir