26/04/2024

Íbúaþróun á Ströndum 1997-2006

Á vef Hagstofu Íslands er mikinn fróðleik um íbúaþróun í landinu að fá og ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is hefur undanfarið verið að glugga í þær tölur. Ef litið er til lengri tíma og borinn saman íbúafjöldi 1997 og 2006 kemur í ljós að íbúaþróun í Bæjarhreppi á þeim tíma er einsdæmi á Vestfjörðum. Þar voru 100 íbúar bæði þessi ár þannig að ekki er um að ræða fækkun í hreppnum. Í Árneshreppi breytist íbúafjöldi úr 74 í 50 sem er fækkun upp á 24 einstaklinga eða 32,4%. Í Kaldrananeshrepp fer íbúafjöldinn úr 142 í 101 sem er fækkun upp á 41 einstakling eða 28,9%. Strandabyggð var árið 1997 þrjú sveitarfélög, Broddaneshreppur, Kirkjubólshreppur og Hólmavíkurhreppur. Íbúafjöldi á þessu svæði fer úr 642 í 507 á þessu árabili sem er fækkun um 135 einstaklinga eða 21%.

Í heildina fer íbúafjöldi á svæðinu úr 958 árið 1997, í 758 árið 2006, fækkun um nákvæmlega 200 einstaklinga eða næstum eins marga og nú búa samanlagt í Bæjarhreppi og Kaldrananeshreppi. Í heildina hefur Strandamönnum fækkað á þessu tímabili um 20,9% sem jafngildir því að meira en fimmti hver maður sé fluttur burt.