13/09/2024

Hyggjast loka póstafgreiðslu á Stað

Í nýjustu fundargerð hreppsnefndar Bæjarhrepps sem birt er hér á vefnum kemur fram að Íslandspóstur hefur sótt um leyfi til að loka póstafgreiðslunni á Stað í Hrútafirði frá 1. apríl 2007. Þetta kemur fram í erindi frá Póst- og fjarskiptastofnun sem lagt var fram á hreppsnefndarfundinum til kynningar. Ef Íslandspóstur hyggst fækka afgreiðslustöðum er fyrirtækinu skylt að senda Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um slíkt með þriggja mánaða fyrirvara og Póst- og fjarskiptastofnun getur svo aftur borið málið undir sveitarstjórnir til að fá umsagnir.

Í reglum um staðsetningu, fyrirkomulag og öryggismál á afgreiðslustöðum fyrir póstþjónustu segir:

"Miðað skal við að núverandi fjöldi afgreiðslustaða Íslandspósts sé nægjanlegur til að veita þá þjónustu sem Íslandspósti ber að veita samkvæmt lögum. Ef Íslandspóstur hins vegar hyggst leggja niður afgreiðslustað þá skal beiðni þar að lútandi lögð fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykktar. Við mat á beiðni skal eftirfarandi lagt til grundvallar:

1. Fjöldi íbúa á því svæði sem afgreiðslustaðnum er ætlað að þjóna.
2. Stærð þess svæðis sem afgreiðslustaðurinn þjónar.
3. Möguleiki íbúa á að sækja þjónustu annað.
4. Samgöngur á svæðinu.
5. Fjöldi afgreiðslna á afgreiðslustaðnum á ári.
6. Annað sem getur haft áhrif á möguleika íbúa á að sækja póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að leita umsagnar sveitarstjórna … á þeim stöðum þar sem fyrirhugað er að leggja niður afgreiðslu eða breyta rekstrarfyrirkomulagi. Íslandspósti ber að tilkynna lokun á afgreiðslustað til Póst- og fjarskiptastofnunar með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara."