12/11/2024

Sjálfstæðismenn kjósa um aðferð

Samkvæmt frétt Skessuhorns hefur stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi ákveðið að leggja til við kjördæmisþing á Ísafirði um helgina, að kosið verði um aðferð við uppstillingu á framboðslista flokksins. Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri flokksins í kjördæminu staðfesti þetta í samtali við Skessuhorn. Segir í fréttinni að undanfarið hafi verið talsverð umræða meðal flokksmanna í kjördæminu og um tíma hafi litið út fyrir að sátt væri um að uppstillingarleiðin yrði farin en nú sé ljóst að svo er ekki.

Á vef Skessuhorns segir ennfremur: ´

"Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns er mest fylgi við prófkjörsleiðina í sitt hvorum enda kjördæmisins en á Vestfjörðum er fylgi meira við uppstillingu. Allir þrír þingmenn flokksins hafa lýst yfir áhuga á að taka sæti á listanum og nái þeir kjöri verða þeir meðal þeirra þingmanna er lengst hafa setið á þingi. Einar Kristinn Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson hafa setið samfellt á þingi síðan 1991 og Einar Oddur Kristjánsson hefur setið á þingi síðan 1995. Rúmur aldarfjórðungur er síðan Einar Kristinn tók fyrst sæti á Alþingi en það var árið 1980 og Sturla tók fyrst sæti á þingi árið 1984. Margir þeirra sem nú eru að draga sig í hlé frá þingsetu hafa setið svipað lengi eða skemur. 

Enginn hefur beinlínis gefið kost á sér til setu á listanum í sæti sitjandi þingmanna en það kann að breytast verði ákveðið að fara prófkjörsleiðina. Sumir þeirra sem rætt var við töldu erfitt að hafna prófkjörsleiðinni, komi tillaga á annað borð fram um þá leið,  þar sem nú stefnir í að prófkjör verði haldið hjá flokknum í öðrum kjördæmum. Aðrir benda á að síðast hafi verið haldið prófkjör í kjördæminu á sama tíma og raðað hafi verið á lista í sumum öðrum kjördæmum með uppstillingu. Hver niðurstaðan verður kemur væntanlega í ljós á sunnudag."