25/04/2024

Hvít jól þýða jarðbönn fyrir smáfuglana

Það stefnir í hvít jól og hátíðlegan blæ yfir hátíðarnar. Menn eru nokkuð sáttir við þau skilyrði og þá verða jólin og allt umstangið í kringum þau hátíðlegri. En það er líka vert að hafa í huga að þá er erfiðara um vik fyrir smáfuglana að sækja sér fæðu og þar getum við mannfólkið hjálpað aðeins til. Fuglafóður fæst í öllum betri verslunum og tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is sá fjöldan allan af stórum og smáum sekkjum í pakkhúsi KSH nú fyrir skemmstu. Það er vonandi að þeir pokar verði ekki til sölu mikið lengur og smáfuglarnir fái nóg að bíta og brenna yfir jólin. Í meðfylgjandi myndbandi er hægt að fylgjast með smáfuglum næra sig undir tónum jólalagsins Heims um ból á norsku.