12/09/2024

Hrafnarnir bregða á leik

Hrafnarnir setja svip á vorið á Hólmavík þar sem þeir æfa hinar margvíslegustu flugkúnstir víðs vegar um bæinn. Fréttaritari náði af þeim mynd þar sem þeir voru sjö saman við æfingar um borð í Sæbjörgu á dögunum. Sennilegt er að það hafi stigið hröfnunum við Steingrímsfjörð til höfuðs að búið sé að festa þá á filmu og að heimildarmynd sé í vinnslu. Kannski eru þeir líka bara svona glaðir yfir því að fjöldi annarra fugla er að lenda á svæðinu um þessar mundir, skríkjandi skógarþrestir, stelkur og hrossagaukur, gæsir og álftir. Ekki hefur enn sést heiðlóa á Ströndum svo vitað sé þetta vorið þó einhverjir þykist hafa heyrt í þeim.

Hrafnar í Sæbjörgu – ljósm. Jón Jónsson