09/09/2024

Heilmikil dagskrá á Riishús-degi á Borðeyri

Svokallaður Riishús-dagur verður haldinn á Borðeyri sunnudaginn 20. mars og hefst dagskráin í skólahúsinu kl. 14:00. Markmiðið með deginum er tvíþætt: Annars vegar að vekja athygli á því  menningarsögulega verkefni sem endurbygging Riis-hússins er og  hins vegar fjáröflun til áframhaldandi vinnu við húsið. Dagskráin er fjölbreytt og samanstendur m.a. af söguupprifjun sem Georg Jón Jónsson sér um, ávörpum og vangaveltum um hugmyndir um notkun hússins, m.a. frá Sigríði Hjaltadóttir formanni stjórnar Byggðasafnsins á Reykjum.

Þá er tónlistarkynning þar sem Elínborg Sigurgeirsdóttir kynnir nýútkominn disk sinn Lauf sem er til minningar um Egil Gunnlaugsson dýralækni, mann hennar. Diskurinn verður líka til sölu og áritunar á staðnum. Þá er á dagskránni myndasýning úr Hrútafirði, m.a. myndir úr réttum að Hvalsá, einnig náttúrulífsmyndir teknar af Róberti Schmidt. Ekki má heldur gleyma töframanninum John sem mætir á svæðið. 

Kaffihlaðborð verður að dagskrá lokinni og að endingu býðst áhugasömum að skoða Riishús í fylgd þeirra Georgs Jóns Jónssonar á Kjörseyri  og Sverris Björnssonar í Brautarholti. Á staðnum verður sala á pennum merktir Riishúsi. Aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir fullorðna, kr. 1.000 fyrir börn á grunnskólaaldri og frítt fyrir börn undir grunnskólaaldri. Pennar merktir Riishúsi verða seldir á kr. 1.000. Eru menn beðnir að athuga að ekki verður posi á staðnum.

Allir áhugasamir boðnir velkomnir til Borðeyrar á Riishús-dag.