26/12/2024

Harðort bréf um Arnkötludalsveg

Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps hefur sent umhverfisráðherra harðort bréf vegna ítrekaðra tafa á afgreiðslu á kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um veg um Arnkötludal og Gautsdal. Ráðherra átti lögum samkvæmt að kveða upp úrskurð um kæru Vegagerðarinnar í síðasta lagi í desember síðastliðnum. Í bréfi hreppsnefndar segir:

"Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps lýsir yfir hneykslun og reiði sinni á hversu dregist hefur að fá úrskurð Umhverfisráðuneytis vegna kæru frá 14. október sem Vegagerðin beindi til ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum vegar um Arnkötludal og Gautsdal. Samkvæmt lögum hefði ráðuneytið átt að skila niðurstöðu í síðasta lagi þann 9. desember 2005 og  í svari þess til Leiðar ehf. var því borið við að ekki hefði verið hægt að úrskurða fyrir þann tíma sökum anna en áætlað væri að úrskurða í málinu í lok janúar 2006. Nú er kominn 2. maí og enn bólar ekki á úrskurði frá ráðuneytinu. Eru þetta forkastanleg vinnubrögð sem geta valdið töfum á gerð vegarins og skaðað þar með þau sveitarfélög sem góðs njóta af bættum samgöngum.

Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps krefst þess að ráðherra hlutist til um málið og sjái til þess að úrskurðað verði í málinu hið fyrsta."