13/10/2024

Aukinn viðbúnaður á Landspítala vegna inflúensu A

Viðbúnaður á Landspítala var í dag færður á svokallað virkjunarstig, samkvæmt
viðbragðsáætlun spítalans, vegna aukins álags af völdum inflúensufaraldursins.
Þetta er næstefsta stig af fjórum sem skilgreint er í áætluninni; efst er
neyðarstig. Á „virkjunarstigi“ viðbúnaðar gæti þurft að draga úr innlögnum
sjúklinga og fresta þeim aðgerðum sem unnt er að fresta á Landspítalanum. Á Landspítala lágu þrjátíu og níu inflúensusjúklingar um hádegi í gær,
þar af níu á gjörgæsludeild. Tólf inflúensusjúklingar voru lagðir inn á einum
sólarhring vegna inflúensunnar en tveir voru útskrifaðir á sama tíma. Meira
reyndi í gær á starfsemi Landspítala vegna inflúensunnar en nokkru sinni fyrr
frá því faraldurinn hófst. 

 

 
Sjúklingar á gjörgæsludeildum frá tveggja
til sjötíu og níu ára

 
Alls hafa 6.609 manns greinst með
inflúensueinkenni hérlendis. Útbreiðsla faraldursins hefur ekki aukist á
höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið en veikin breiðist út á
landsbyggðinni.
 
Frá 23. september 2009 hafa yfir hundrað manns verið
lagðir inn á sjúkrahús hérlendis með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu
A(H1N1)v 2009, þar af tæplega níutíu manns á Landspítala. Af þeim eru þrír af
hverjum fjórum með undirliggjandi sjúkdóma.
 
Frá októberbyrjun hafa
fjórtán sjúklingar verið lagðir inn á gjörgæsludeildir með staðfesta inflúensu
eða gruns um hana. Í gær voru alls tíu á gjörgæsludeildum, þar af einn á
Akureyri og níu á Landspítala. Meðalaldur þeirra er um fimmtíu ár og aldursbilið
frá tveggja ára til sjötíu og níu  ára.
 
Fólk á öllum aldri greinist með
sjúkdóminn í öllum sóttvarnaumdæmum landsins. Flestir eru fimmtán til nítján ára
og unnt er að greina hlutfallslega fjölgun sjúkdómstilvika barna og ungmenna á
leik- og grunnskólaaldri miðað við aldursdreifinguna í júlí og ágúst í sumar.

 
Inflúensutilfellum fækkaði nokkuð í aldurshópnum tuttugu til þrjátíu
ára og fækkaði verulega hjá þeim sem eru sextugir og eldri. Þetta kann hins
vegar að breytast þegar líður á faraldurinn.