22/12/2024

Grátrana heimsækir Strandir

gratrana

Guðbrandur Sverrisson bóndi á Bassastöðum var á ferðinni norður í Kolbeinsvík snemma í morgun, þann 1. maí, rétt norðan við Spenann sem skilur á milli Kaldrananeshrepps og Árneshrepps. Þar var þá flækingsfugl staddur, svokölluð grátrana, sem er fremur sjaldséður gestur á Ströndum. Að sögn Guðbrandar var grátranan róleg, en frekar rytjuleg, mun lakari útlits en sú sem dvaldi nokkrar vikur á Bólstað og Geirmundarstöðum í Selárdal í apríl og maí 2009. Aðrar fuglafréttir frá ferðalagi Guðbrandar eru helstar að tjaldurinn var orpinn þremur eggjum í vegkantinn við Svansbúð í Kaldbaksvík. Meðfylgjandi mynd er tekin 1. maí 2009 af Jóni Jónssyni og er af grátrönunni sem þá heimsótti Selárdalinn, eins og betur má lesa hér.